Sem við ókum um Mývatnssveitina á einum fegursta vordegi ársins, varð mér að orði að nú væri líkt og Guð væri að leika sér við að gera náttúrusköpunarverk sitt sem stórbrotnast.
Það var ekki bara \"leikmyndin\", fjöllin og vatnið sem heillaði. Ljósamaðurinn á himninum stal öðrum fremur senunni með því að kveikja á bæði kösturum og reykvél. Sólstafir, silfur og gull og skýin í öllum litum. Við þurftum að hemla býsna snögglega mitt í allri þessari fegurð því erlendir ferðamenn á undan okkur stöðvuðu án fyrirvara bílaleigubíla sína á miðjum vegi, seildust í síma og myndavélar. Það mátti heyra andvörp út um opna glugga. Í raun ríkti fegurðin ein, eins og skáldið orðaði það í Heimsljósinu.
Heyrðist þá skær rödd úr aftursætinu: \"Af hverju er Guð alltaf að leika sér hérna í Mývatnssveitinni? Af hverju er hún Guð svona oft hérna eitthvað að leika sér?\"
Ég leit á konuna mína og sá að við hugsuðum bæði það sama.
Rétt fyrir svefninn spurði ég hana Arndísi mína hvort hún hefði nokkru sinni rætt það við dóttur okkur að Guð væri kona. Hún minntist þess ekki og ég ekki heldur.
Að kvengera Guð er óalgengt en bæði eðlilegt og fallegt. Í fljótu bragði man ég bara eftir einni konu sem fór snemma að ræða það að í hennar huga væri Guð kona. Úr því varð fréttamál. Eiginlega þótti skoðun konunnar jaðra við guðlast, a.m.k. í íhaldssömustu kreðsunum. Hneyksli, sögðu þeir vanaföstustu. Konan sem hélt þessu fram var Auður Eir, fyrsta konan sem fékk vígslu hér á landi, árið 1974, árið sem ég varð níu ára gamall. Hún braut blað í jafnréttisbaráttu.
Dóttir okkar hefur ekki hlotið trúarlegt uppeldi, sennilega hefur hún bara farið tvisvar í kirkju síðan hún fæddist. Það er því engin innræting að þvælast fyrir henni í hugtakaheiminum, hugur hennar er frjáls og hún kyngerir orð með þeim hætti sem henni finnst henta.
Ef hún gengi í sunnudagskóla efa ég ekki að hún væri búin að \"læra\" að Guð væri karl, og að hann Guð væri karl í krapinu.
Það finnst mér umhugsunarvert. Þess vegna skrifa ég þennan pistil.
Björn Þorláksson