Það er bannað að henda humarskelinni eftir góða sjávarréttaveislu. Skutlið henni miklu fremur inn í poka, þjappið vel og bindið fyrir áður en komið er fyrir í frystinum. Góð skel er grunnurinn að almennilegum krafti í næstu súpu – og hann er einfaldari en margur heldur; steikið olíubaðaðan lauk í potti ásamt hvítlauk, nokkrum sellerístöngum og gulrótum og þegar allt saman er orðið mjúkt er ráð að skella allri humarskelinni út og steikja í einar fimm mínútur. Þá er komið að einni dós af tómatpúrré og enn er steikt í nokkrar mínútur á meðan skelin er mulin vel í pottinum. Loks er fimm lítrum af vatni hellt í pottinn og suðan látin koma upp og allt saman látið bulla í allt að þrjá tíma. Svo er bara að sía hratið frá og grunnurinn er kominn að úrvals sjávarréttasúpu fyrir svo að segja engan pening. Margir, sem á annað borð eru komnir í þennan ham, reyna að búa til eins vel úti látinn grunn og nokkur kostur er. Svo er honum skipt á milli poka í hæfilegum skömmtum og skellt í frystinn til seinni nota. Það er nefnilega ekkert sælla en að vakna á köldum vetrarmorgni og geta tekið skammtinn sinn út úr frysti og kaupa svo ferskan fisk í súpuna á leið heim úr vinnu.