Enn á ný ætlar Ríkissjónvarpið að herja á landsmenn með dagskrárkynningarþætti sem dubbaður er upp sem skemmtiþáttur á besta sjónvarpstíma fjölskyldunnar á föstudagskvöldum. Þáttur Gísla Marteins hefur verið staðnaður um árabil og ekki standa vonir til þess að breyting verði á því í vetur. Mörgum þykir skemmtiþátturinn svo leiðinlegur að umsvifalaust er skipt yfir á aðra stöð sé ætlunin að nota föstudagskvöldið til að njóta sjónvarps.
Það eru auðvitað mikil öfugmæli að tala um leiðinlega skemmtiþætti og ómenningarlega menningarþætti. En þannig getur það verið þegar illa tekst til.
Engum dylst að þáttur Gísla Marteins á föstudagskvöldum er bein eftirlíking á vinsælum síðkvöldsþáttum í bandarísku sjónvarpi. Fyrirmyndin er The Tonight Show sem Johnny Carson og Jay Leno stýrðu lengst af. Í þeim þætti koma helstu kvikmyndastjörnur samtímans og kynna komandi Hollywood myndir sínar. Þáttastjórnandinn segir brandara og hefur heilt teymi færustu handritshöfunda í Hollywood sér til stuðnings. Svo kemur tónlist í lokin.
Það sem hefur einkennt þætti Gísla Marteins í vaxandi mæli er flatneskja í vali viðmælenda og vaxandi mont og drýldni þáttastjórnandans. Hann reynir að vera sniðugur en oftar en ekki virka sniðugheitin sem óttalegur barnaskapur og eru beinlínis kjánaleg, enda þarf hann sjálfsagt að semja sína brandara sjálfur. Honum hefur stundum þótt við hæfi að velta sér upp úr erfiðleikum fólks og fyrirtækja.
Ríkissjónvarpið bíður landsmönnum upp á þetta ár eftir ár sem er vitanlega fyrir neðan allar hellur í ljósi þess að allir landsmenn þurfa að sæta skylduáskrift að þessari ríkisstofnun hvort sem þeim líkar betur eða verr. Í ljósi þess ættu kröfurnar að vera miklu meiri til gæða þáttar sem sendur er út á besta tíma. Þáttar sem er ætlaður allri fjölskyldunni. Því er óviðeigandi að kynnirinn noti þáttinn til að þjóna lund sinni, ýmist með því að rakka fólk niður eða hefja þröngan vina- og kunningjahóp sinn upp til skýjanna – þegar allt er ýmist „æðislegt“ eða alveg „geggjað“.
Val Gísla á viðmælendum er býsna einsleitt. Ár eftir ár birtist þarna sama fólkið sem hefur stundum ekki mikið fram að færa annað en að flissa með Gísla Marteini. Nær undantekningarlaust er þarna þáttagerðamaður af Ríkisútvarpinu að kynna komandi þátt, eða jafnvel bara fréttamaður af fréttastofunni til að minna fólk á að Ríkisútvarpið haldi nú úti fréttastofu
Forvitnilegt verður að sjá hvenær sömu gestir hans mæta og verið hafa þarna ár eftir ár, áhorfendum til mismikilla leiðinda. Dæmi um fastagesti sem hægt er að dunda sér við að meta hvenær verða látnir mæta í vetur til að flissa með Gísla Marteini: Felix Bergsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Einar Bárðarson, Svandís Svavarsdóttir, Sigurður Gunnarsson, Jakob Frímann Magnússon, Sveppi, Rúnar Gíslason, Selma Björnsdóttir, Helgi Seljan og Egill Helgason svo einhverjir af fastaliðinu séu nefndir. Allt er þetta hið mætasta fólk en í þætti Gísla Marteins er það notað til uppfyllingar með dagskrárgerðarfólki Ríkissjónvarpsins sem fær þarna besta útsendingartíma til að kynna misgóða þáttagerð sína, nema þegar það er sjálft að kynna sína þætti.
Ríkissjónvarpið verður að gera betur og bjóða upp á annað en martraðarkenndan fjölskylduþátt á besta tíma á föstudagskvöldum. Leiðinlegar dagskrárkynningar/auglýsingar dulbúnar sem skemmtiþættir eru dapurlegt fyrirbæri.
Lágt er nú risið á stofnuninni sem færði þjóðinni Spaugstofuna og Á tali hjá Hemma Gunn. Heimur versnandi fer.
- Ólafur Arnarson