Hroki sigríðar andersen og brynjars níelssonar

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur sýnt sitt rétta andlit. Hún beitti grímulausu pólitísku mati við val á dómurum í Landsrétt. Með því skemmdi hún þann meðbyr sem nýr dómstóll hefði annars getað fengið. Hún vék frá faglegu vali til að tryggja að fólk úr hennar flokki kæmist að þó það hefði mun minni hæfileika en aðrir umsækjendur að mati fagnefndarinnar. Til hvers að vera með sýndarmennsku af því tagi að skipa valnefnd þegar flokksskírteini ráða þegar til kastanna kemur? Er ekki einfaldara að viðurkenna Sovétvinnubrögðin og auglýsa að skilyrði fyrir skipun í dómaraembætti sé að vera með flokksskírteini í flokki dómsmálaráðherra, helst úr harðlínukjarna flokksins?

 

Afstaða dómsmálaráðherra til tveggja umsækjenda er það sem vekur eiknum athygli og setur ljótan pólitískan svip á vinnubrögð ráðherra í þessu viðkvæma og mikilvæga máli.

 

Annars vegar að ýta Ástráði Haraldssyni út en hann var einn af þeim 15 sem voru taldir hæfastir. Flestir sem fylgjast með stjórnmálum á Íslandi vita að hann er yfirlýstur vinstri maður og fyrrverandi eiginmaður Svandísar Svavarsdóttur þingmanns VG og þar með fyrrverandi tengdasonur Svavars Gestssonar sem er einn helsti leiðtogi vinstrimanna á Íslandi síðustu áratugi. Nei, Sigríður Andersen vildi ekkert svona “kommapakk”.

 

Hins vegar að velja í eitt af 15 dómarasætum eiginkonu Brynjars Níelssonar þingsmanns Sjálfstæðisflokksins en hún var ekki talin ein af 15 hæfustu að mati fagnefndarinnar. Arnfríður kann að vera hin mætasta manneskja en hún var ekki talin ein af þeim hæfustu og því þurfti að víkja einhverjum sem var talinn hæfari til að koma henni að. Líta má þannig á að fyrrverandi eiginmanni þingmanns VG hafi verið vikið til hliðar til að koma að eiginkonu þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

 

Í hvaða landi erum við stödd? Á hvaða öld erum við stödd? Er þetta “Nýja-Ísland” þeirra íhaldsmanna?

 

Margir hafa efast stórlega um að Sigríður Andersen ætti erindi á Alþingi. Að ekki sé nú talað um í ríkisstjórn. Henni skolaði inn á Alþingi á siðasta kjörtímabili vegna veikinda og fráfalls þingmanns Sjálfstæðisflokks sem var kjörinn á grundvelli niðurstöðu prókjörs. Það voru vond skipti. Nú hefur hún sýnt sitt rétta andlit og mun ekki verða Sjálfstæðisflokknum neinn vegsauki.

 

Miðað við þessar ómálefnalegu og beinlínis óboðlegu hrókeringar varðandi eiginkonu Brynjars, hefði hann átt að hafa vit á að láta lítið fyrir sér fara á næstunni. En þá er hann svo taktlaus að viðra þá skoðun sína opinberlega að stjórnarandstaðan á þingi sé í “ruslflokki”.

 

Dagfari er enginn aðdáandi stjórnarandstöðunnar þó hann noti ekki svo dónalega lýsingu á henni að telja hana í “ruslflokki”. En eitt er víst að ekki er hærra risið á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins en stjórnarandstöðunnar sem Brynjar dæmir í “ruslflokk”. Hann er að dæma sjálfan sig í slíkan flokk ásamt með t.d. Sigríði Andersen, Ásmundi Friðrikssyni, Óla Birni Kárasyni, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Hildi Sverrisdóttur – svo einhverjir séu nefndir af handahófi, enda af nógu er að taka. Því miður.

 

Samkvæmt skoðanakönnunum bera landsmenn afar lítið traust til íslenskra alþingismanna. Er við öðru að búast í ljósi þeirra vinnubragða sem hér hafa verið gerð að umtalsefni?

 

Hroki Sigríðar Andersen og Brynjars mun bitna á þeim. Dramb er falli næst.

 

 

rtá.