Þolinmæði annarra flokka í borgarstjórn gagnvart Framsókn er senn á þrotum. Einar Þorsteinsson hefur þegar fengið nægan tíma til að meta stöðu sína og flokksins. Enginn rök eru fyrir öðru en að ganga strax til viðræðna um nýjan meirihluta.
Mikill misskilningur er ef Framsókn telur að ekki sé unnt að mynda meirihluta í Reykjavík án hennar. Það gæti gerst –öllum að óvörum – hiki Einar of lengi.
Einnig er það misskilningur að Framsókn í Reykjavík hafi unnið eitthvert einstakt afrek með því að fá fjóra menn kjörna af 23 vegna óánægju í öðrum flokkum. Á meðan borgarfulltrúar voru 15 átti Framsókn oft tvo fulltrúa sem jafngildir meira en þremur fulltrúum í núverandi 23ja manna kerfi. Þannig voru þau lengi borgarfulltrúar fyrir Framsókn, Alfreð Þorsteinsson og Sigrún Magnúsdóttir.
Alfreð samdi þá við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um að hann hefði Orkuveitu Reykjavíkur fyrir sig en Ingibjörg borgarstjóri réði öllu öðru. Um það ríkti sátt. Alfreð lét reisa skrifstofuhöll yfir Orkuveituna sem líktist seðlabankabyggingu í útlöndum og fjárfesti grimmt, m.a. í risarækjueldi og fleira sem var fjarri hlutverki Orkuveitu Reykjavíkur. Monthöllin fyrir Orkuveituna reyndist svo nær ónýt vegna myglu.
Gangi Einar ekki strax til samninga við þá sem bjóða raunhæfan kost gæti komið til þess að menn teldu skárri kost að höfuðandstæðingarnir tækju höndum saman og mynduðu meirihluta án Framsóknar.
Samfylking, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa samtals tólf borgarfulltrúa!
Hið óvænta getur gerst ofmetnist Einar Þorsteinsson og láti hroka og sjálfsofmat ráða för. Hann mætti hafa hugfast að vika er langur tími í pólitík.
- Ólafur Arnarson