Hræðsluáróður gegn hræðslubandalagi virkar

Sjálfstæðisflokkurinn er að bæta við sig fylgi samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins á sama tíma og Píratar, Björt framtíð og Samfylkingin tapa. Tveir síðartöldu flokkarnir eru við það að falla út af Alþing ef marka má þessa könnun.
 
Svo virðist sem útspil Pírata og stofnun hræðslubandalags fjögurra flokka til myndunar vinstri stjórnar sé að snúast í höndum þessara flokka. Vinstri grænir hafa verið á siglingu og nú er viðbúið að fylgi þeirra fari minnkandi að nýju. Píratar lögðu mikið undir og sýndu dirfsku. Það er eðlilegt í ljósi þess að þeir eru óhefðbundinn stjórnmálaflokkur og engan þarf að undra þó þeir fari aðrar leiðir en hinir. Litlu flokkarnir tveir, Björt framtíð og Samfylkingin, tóku mestu áhættuna. Nú bendir margt til þess að þeir muni gjalda þessa hræðslubandslags í kosningunum. Báðir standa þeir tæpt. Þeir gætu hæglega lent í því að ná ekki nægu fylgi til að fá menn kjörna á Alþingi. 
 
Náttfari spáir því að annað hvort Björt framtíð eða Samfylking verði neðan við 5% fylgismúrinn og falli með því út af Alþingi. Hann þorir þó ekki að segja hvor flokkurinn hlýtur þau örlög.
 
Með því væri útilokað að mynda vinstri stjórn undir forystu Pírata og VG. Það næðist ekki nægilegt fylgi.
 
Hræðslubandalagið færði stjórnarflokkunum vopn í hendur. Þeir hafa stundað skipulegan hræðsluáróður í kosningabaráttu sinni. Hermt er að tugir manna hringi út í Valhöll og víðar og hafi einkum þau skilaboð fram að færa að kjósendur verði að standa saman um að koma í veg fyrir “vinstra slys” sem gæti sett þjóðfélagið á annan endann með skattahækkunum og óábyrgum aðgerðum. Bent er á fjármálaóreiðu og stjórnunarvanda í Reykjavíkurborg en þar eru sömu flokkar við völd, Samfylking, VG, BF og Píratar.
 
Ýmsir eru nú farnir að spá því að tilurð hræðslubandalagsins muni leiða til þess að Sjálfstæðisflokkurinn vinni varnarsigur í kosningunum, nái 25% fylgi hið minnsta, og tapi einungis 2 þingmönnum í stað 4 sem stefndi í áður en fram kom grímulaus hótun um vinstri stjórn.
 
Útspil Pírata breytti umræðunni í aðdraganda kosninga. Eftir að kjósendur fóru að horfa á vinstri stjórn fjögurra flokka sem raunhæfan kost, þá var meira farið að velta fyrir sér nöfnum á bak við flokkana. Nú gengur VG ekki eins vel og áður að fela Steingrím J. Sigfússon og Svandísi Svavarsdóttur, sem falin voru vandlega á bak við vinsælan formann, Katrínu Jakobsdóttur, sem birtist brosandi og góðleg í auglýsingum flokkksins. 
 
Kjósendur gera sér ljóst að Katrín verður ekki ein í ríkisstjórn sem flokkurinn kynni að koma að. Og þá er stutt í Steingrím J. og Svandísi sem eiga sinn vægast sagt umdeilda feril að baka í vinstri stjórninni sálugu. Einnig er spurt margra erfiðra spurninga um Píratana þegar alvaran blasir við.
 
Hræðslubandalagið er á góðri leið með að færa Sjálfstæðisflokknum varnarsigur á silfurfati.
 
Hræðslubandalagið gæti reynst Samfylkingu eða Bjartri framtíð banvænt.