Bankastjóri Arion banka vakti athygli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á því að sniðganga borgarinnar á vörum gegn Ísrael gæti teflt byggingu 5 stjörnu hótels á Hörpureitnum í tvísýnu. Þetta kom fram í hádegisfréttum Rúv sem vitnaði til DV. Forsíðufyrirsögn DV í dag er: „Hóta að hætta við hótelið“.
Skammt er síðan tilkynnt var um samning Marriot hótelkeðjunnar um byggingu fyrsta fimm stjörnu hótelsins á landinu fyrir 17 milljarða króna. Í eigendahópnum eru að hluta til gyðingar. Arion gegndi hlutverki í skipulagi fjármögnunar og lánsfjármögnunar hótelsins.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion, staðfesti að hann hefði sent tvö bréf, annað í stjórnarráðið en hitt til borgarstjóra sl. laugardag.
Kemur fram hjá Rúv að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hafi skipt um skoðun á sunnudag og hafi þá hætt að verja sniðgönguályktunina m.a. vegna þess að viðbröð hefðu verið meiri en hann bjóst við. Dagur neitaði því í samtali við Rúv að Arion bréfið hefði haft bein áhrif á framgöngu hans.