Bændahöllin, sem er í eigu Bændasamtaka Íslands, er komin í þrot með rekstur fasteignarinnar sem hýsir Hótel Sögu. Hermt er að Arion banki sé með Bændahöllina í fanginu með það að markmiði að hún verði seld sem fyrst en áhvílandi lán munu nema fjórum milljörðum króna.
Fram hefur komið í blöðum að undanförnu að erlendir aðilar hafi sýnt því áhuga að kaupa fasteignina í því skyni að halda áfram hótelrekstri í þessu glæsilega stórhýsi sem sett hefur góðan svip á Reykjavík síðustu sextíu árin. Óskandi er að það gerist og hótelrekstur haldi þarna áfram. Þegar ferðaþjónustan kemst á fulla ferð á næstu mánuðum er mikilvægt að hótelrekstur standi þá til boða í Bændahöllinni, hvernig sem eignarhaldi verður þá háttað á fasteigninni.
Þegar spurðist út að fasteignin væri til sölu, fóru alls konar ríkisstofnanir að sjálfsögðu af stað til að reyna að komast yfir húsið með það að markmiði að auka enn við opinbera starfsemi á sama tíma og tekjur ríkis og sveitarfélaga dragast stöðugt saman. Slíkar hugmyndir eru galnar og bera vott um að forsvarmenn umræddra ríkisfyrirtækja skortir tilfinnanlega jarðtengingu. Vita þessir aðilar ekki um þann fjárlagahalla sem blasir við og er að mestu ófjármagnaður? Útlit er fyrir að fjárlagahalli áranna 2020 og 2021 verði samtals um 700 milljarðar. Á meðan þannig er ástatt eru engar forsendur fyrir því að ríkið kaupi upp atvinnuskapandi fyrirtæki til að leggja undir ríkisstarfsemi sem laskaður ríkissjóður stendur undir.
Nefndar hafa verið hugmyndir um að flytja höfuðstöðvar skattyfirvalda í húsið og breyta því úr Bændahöll í Skattahöll. Þá eru á sveimi alls konar hugmyndir um að koma þarna upp dvalarheimili fyrir aldraða og svo bætist við sú hugmynd að kaupa húsið undir útþaninn rekstur Háskóla Íslands. Hugmynd rektorsins mun ganga út á að flytja starfsemi kennaranáms úr Stakkahlíð, þar sem hún fer fram í rúmgóðu húsnæði. Ekki hefur verið upplýst hvað ætti þá að gera við húsin við Stakkahlíð. Ef til vill að breyta þeim í hótel!
Kostnaður við að breyta húsnæði hótels í allt aðra starfsemi er gífurlegur. Mikil sóun ætti sér þá stað. Vænlegast er að selja þetta glæsilega hús undir áframhaldandi hótelrekstur. Engar aðrar hugmyndir eru boðlegar. Síst af öllu ætti að taka Bændahöllina undir enn meiri ríkisrekstur á tímum þegar krafa um aðhald í ríkisrekstri hlýtur að verða æ háværari.