Hótanir og ögranir úr röðum samstarfsflokka í ríkisstjórn eru ekki nýtt fyrirbrigði. Stundum eru þær vísbendingar um bresti í samstarfi en í annan tíma bara til marks um einhvers konar óþol.
Þegar líður á kjörtímabil má oft og tíðum túlka hótanir og ögranir sem skilaboð um áhuga á að vinna með öðrum að loknum næstu kosningum.
Upp á síðkastið hafa fjölmiðlar greint frá hótunum og ögrunum í stjórnarsamstarfinu sem áhugavert er að skoða í þessu ljósi.
Enginn tók mark á fyrstu ögrun VG
Þetta byrjaði í vor sem leið með því að allir óbreyttir þingmenn VG fluttu tillögu um þjóðaratkvæði um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Í öllum öðrum ríkjum hefði slík ögrun frá forystuflokki í ríkisstjórn gegn kjarnanum í utanríkis- og varnarstefnu hennar valdið pólitískum jarðskjálfta.
Hér tók hins vegar enginn mark á þessu. Tillagan var einungis ætluð til innanflokks brúks. Hvorki var unnt að líta á hana sem skilaboð inn í þetta stjórnarsamstarf né inn í framtíðina. Hún virkaði fremur eins og dauft bergmál liðins tíma.
Annarri ögrun VG fylgir meiri þungi
Það er meiri þungi í tillögunni sem þingmenn VG tilkynntu fyrir nokkrum dögum að yrði forgangsmál á þessu þingi. Það felur í sér að taka vald á ýmsum verkefnum í varnarmálum frá utanríkisráðherra og færa til þingsins. Efnislega ágæt hugmynd. En í stjórnarsamstarfi án spennu hefðu forystumenn stjórnarflokkanna gert út um málið sín á milli og síðan komið fram með sameiginlega niðurstöðu.
Með þessari aðferð er VG að bjóðast til þess að semja við stjórnarandstöðuna framhjá Sjálfstæðisflokknum um framgang málsins. Í því felst ögrunin.
Greinilegt er að VG telur brýnt að sýna kjósendum sínum aukinn styrk fyrir opnum tjöldum með því að draga Sjálfstæðisflokkinn til sín í þessum heita málaflokki. Jafnvel þótt Sjálfstæðisflokkurinn sjái ekki ástæðu til þess að vera á móti lítur út fyrir að hann hafi orðið að lúta í lægra haldi með þessu móti.
Áhættan fyrir VG er hins vegar sú að það yrði mikil niðurlæging fyrir forystuflokk ríkisstjórnarinnar að ná ekki fram forgangsmáli sínu. En sjálfsagt er lítil hætta á því.
Hótanir innan úr Sjálfstæðisflokknum um stjórnarslit hafa lítil áhrif
Á dögunum sagði stór áhrifamaður í baklandi Sjálfstæðisflokksins að það væri tilefni stjórnarslita ef forsætisráðherra neitaði að hitta varaforseta Bandaríkjanna. Þessi hótun ein og sér hefur trúlega ekki ráðið úrslitum. En óneitanlega tók forsætisráðherra u-beygjuna í meiri varnarstöðu eftir að þessi hótun innan úr samstarfsflokknum kom fram. Það er svo annar handleggur að hún tók u-beygjuna með nokkuð leikrænum stæl.
Í stjórnarsamstarfinu virðast heilbrigðisráðherra og umhverfisráðherra nýta sér til hins ýtrasta þá stöðu sem fylgir ráðherravaldinu að geta komið fram margvíslegum pólitískum breytingum án samráðs þegar ekki þarf að fara með mál fyrir Alþingi. Þetta gerist að einhverju marki í öllum stjórnum en sennilega í ríkari mæli í tilviki þessara ráðherra en almennt tíðkast. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins virðast ekki vera í pólitík af þessu tagi.
Engum vafa er undirorpið að hótun fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins um stjórnarslit vegna slíkra athafna umhverfisráðherra endurspeglar talsverða undiröldu og gremju. Að baki þeirri hótun liggur það álit þingmanna í Sjálfstæðisflokknum að umhverfisráðherra fari út fyrir valdheimildir sínar. Það er þung og alvarleg ásökun.
Í þessu tilviki eru þingmennirnir augljóslega ekki búnir að gleyma að það var forsætisráðherra sem á bak við tjöldin þrýsti þeirra ráðherra út úr dómsmálaráðuneytinu. Mótleikinn vilja þeir hins vegar leika fyrir opnum tjöldum ef færi gefst. Alls er þó óvíst að það takist. Formennirnir munu væntanlega koma málinu ofan í skúffu.
Lítil alvara
Ekkert af þessum atriðum sýnir neina þverbresti í stjórnarsamstarfinu. Þau segja það eitt að samstarfið er ekki spennulaust. Stjórnarsamstarf er það sjaldnast. En Sjálfstæðisflokkurinn og VG vilja þó hvor um sig sýna hinum að þeir geti hugsað annað. Enn sem komið er bendir þó ekkert til að svo sé í alvöru.