Innanhússarkitektinn Katrín Ísfeld opnaði nýverið sitt eigið stúdíó við Bríetartún 9-11 í glæsilegum húsakynnum á fyrstu hæð sem ber heitið Katrín Ísfeld Hönnunar stúdíó. Sjöfn Þórðar heimsækir Katrínu í stúdíóið og fær innsýn í hönnunina á stúdíóinu og áherslur Katrínar í innanhússhönnun.
Katrín sérhæfir sig bæði í stærri og smærri verkefnum fyrir heimili og opinbera staði og nýtur sín í ólíkum verkefnum sem hvert og eitt hefur sína áskorun.
„Ég legg mikinn metnað í að árangur hvers verkefnis falli að því umhverfi sem það er í og endurspegli sérstakan stíl sem er bæði frumlegur og klassískur,“ segir Katrín og hefur ástríðu af starfi sínu. Þegar á að hanna rými fyrir heimili segir Katrín að það sé mikilvægt að kynnast persónunum sem þar búa til þannig að persónuleiki þeirra fái að njóta sín í hönnuninni.
„Hönnun er upplifun, ég þori ávallt að leita eftir jafnvægi og gleði í hönnun,“ segir Katrín og hefur líka gaman að því að leika sér með litapallettur sem brjóta upp hið hefðbundna. Katrín flytur einnig inn ítalskar innréttingar frá Arrital sem eru fyrsta flokks gæða hönnun og má sjá brot af þeirri hönnun í stúdíóinu sem fanga augað. Um er að ræða stílhreinar og vandaðar innréttingar sem sameina notagildið og fagurfræðina með hrífandi útkomu. Sjón er sögu ríkari.
Missið ekki af áhugaverðu innliti í þættinum í kvöld.
Þátturinn Fasteignir & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.