Þórunn Högnadóttir stíllisti og fagurkeri verður hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Fasteignir og Heimili í kvöld:
Með hækkandi sól og sumri langar mörgum til að fegra garðana sína og eignast draumapallinn þar sem hægt er að njóta upplifana heima. Þórunn Högnadóttir stílisti og fagurkeri með meiru og eiginmaður hennar ákváðu að láta drauminn rætast í sumar og hönnuðu og byggðu sinn draumapall sem hægt er að njóta allan ársins hring.
Þau létu sér það ekki bara nægja, heldur hönnuðu þau og byggðu líka pall fyrir heimasætuna með útieldhúsi. Sjöfn Þórðar heimsækir Þórunni í Fossvoginn, þar sem fjölskyldan býr á fallegum stað þar sem veðursældin er með eindæmum.
Sjöfn heimsækir Þórunni út pallinn og fáum góða innsýn í aðstöðuna og hvernig þau hafa stækkað heimilið með góðum palli þar sem hugsað er fyrir afþreyingu og gæðastundum fyrir alla fjölskylduna. „Við erum ótrúlega ánægð með útkomuna og nýtum pallinn mjög vel. Hér á ég líka mínar hugleiðslustundir og nýt morgnana gjarnan hér í kyrrðinni,“ segir Þórunn og að pallurinn sé kærkomin viðbót og auki gæðastundir fjölskyldunnar.
Þórunni er margt til lista lagt og hefur gaman að stílisera og breyta heimilinu regluleg, hið sama má segja um draumapallinn. Fagurfræðin og notagildið fléttast vel saman og litatónarnir spila vel saman þar sem svarti liturinn er í forgrunni og grænni liturinn, gróðurinn brýtur upp. Pallur og útieldhús heimasætunnar fær mýkri litatóna en þar fá pastellitirnir að njóta sín með svarta litnum í forgrunni. Þórunn er mikill fagurkeri og leggur mikinn metnað í að dúlla með smáhluti og útbúa dýrindis kræsingar sem bæði gleðja bragðlaukana og augað.
„Ég hef mjög gaman að því að nýta það sem er í garðinum og setja saman kransa. Einnig er upplagt að nýta gróðurinn og blómin sem hér vaxa og setja í vasa og punta pallinn,“ sagði Þórunn sem er mikill heimilisdúllari. Þegar gesti ber að garði tekur Þórunn ávallt vel á móti þeim og engin undantekning var á því þegar þátturinn Fasteignir & Heimili bar að garði. Þórunn bauð upp á dýrindis bollakökur sem skreyttar voru að hætti stílistans og heimasætan fékk líka sínar uppáhalds bollakökur á pallinn sinn.
Missið ekki af skemmtilegu innliti á pallinn til Þórunnar í kvöld.
Þátturinn Fasteignir & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.