Ólafur Laufdal setti mikinn og góðan svip á skemmtanalíf Íslendinga í síðustu öld. Hann er nú látinn, 78 ára að aldri. Útförin verður frá Hallgrímskirkju kl 15 á morgun, föstudag.
Ólafur starfaði fyrst sem þjónn í Glaumbæ þar sem Glaumbæjarkynslóðin kynntist honum sem liprum og vingjarnlegum þjóni. Síðan kom hann að rekstri Óðals við Austurvöll áður en hann tók yfir Hollywood og breytti staðnum í þann vinsælasta á landinu. Næst var það Broadway í Mjóddinni í Reykjavík áður en hann réðist í það stórvirki að reisa Hótel Ísland en þar var langstærsti veitinga-og skemmtistaður landsins með hótel á efri hæðunum. Hin síðari ár hefur Ólafur og kona hans, Kristín Ketilsdóttir sem var með honum í rekstri fyrirtækjanna alla tíð, byggt upp glæsilega gisti-og veitingaaðstöðu í Grímsborgum á bökkum Sogsins í Grímsnesi.
Með störfum sínum og forystuhlutverki hafði þessi fjölskylda gríðarleg áhrif á skemmtanamenningu Íslendinga allt frá áttunda áratug síðustu aldar og lengi fram eftir. Þeir sem komnir eru á miðjan aldur og þaðan af meira eiga flestir góðar endurminningar frá heimsóknum á skemmtistaði þeirra sem voru reknir með glæsibrag og af miklum metnaði. Settar voru upp glæsilegar skemmtanir og söngleikir og þekktir erlendir listamenn komu fram á stöðum Ólafs Laufdal. Hápunkturinn var sennilega þegar Rod Stewart steig á sviðið á Broadway og tók lagið með Björgvini Halldórssyni. Þeirri stund gleyma þeir fjölmörgu seint sem þar voru viðstaddir.
Þó Ólafur Laufdal væri umsvifamikill og óumdeildur konungur skemmtanalífsins á Íslandi um árabil virtist það ekki hafa mikil áhrif á persónu hans. Hann var ávalt ljúfur, lítillátur, kurteis og laus við hroka og hvers kyns stæla. Hann hafði ríka þjónustulund og lét verkin tala. Starfsfólki líkaði vel að vinna fyrir fjölskylduna, viðskiptavinir sóttust eftir samstarfi og gestum leið vel á skemmtistöðum Ólafs og Kristínar konu hans.
Með Ólafi Laufdal er horfinn af sviðinu mesti frumkvöðull skemmtanalífsins á Íslandi síðustu hálfu öldina. Blessuð sé minning hans.
- Ólafur Arnarson.