Hollustan í nestitöskuna um verslunarmannahelgina – chia-partý er æði

Nú er lag að útbúa nokkra hollusturétti sem smellpassa í nestistöskuna beint í útileguna, náttúruna, fjallgönguna, sundið eða hvert sem leið liggur um verslunarmannahelgina.  Margrét Leifsdóttir heilsumarkþjálfi er lista góð í því að búa til einstaklega ljúffenga heilsurétti.  Hún drullumallaði, eins og hún orðaði það sjálf, meðal annars þennan Chia graut sem hún nefnir Chia-partý. Hægt er að bæta í berjum og alls konar suðrænum ávöxtum, kókosflögum og öðru eftir smekk hvers og eins. Þessi uppskrift eru algjört æði og ofur einföld í framkvæmd. Svo er gott að eiga glerkrukku til að setja grautinn í og góða nestistösku.

Chia-partý

(fyrir 1)

2 msk. chia fræ

150-200 ml heimagerð möndlumjólk

1. Hrærið chia fræjunum saman við möndlumjólkina.

2. Látið liggja í um það bil 10 mínútur, hrærið nokkrum sinnum í grautnum.

3. Bætið við ávöxtum, til dæmis epli, mangó eða berjum

4. Ofaná er gott að setja kókosflögur, kanil, hnetur eða mórber.

Margrét gerði jafnframt þennan dásamlega hollustu þeyting sem heitir Sumargrænn þeytingur. Hann er ómissandi í ferðalagið og hleður líkama og sál af góðri orku sem skilar sér í betra úthaldi og vellíðan. Við mælum þessum þeyting í útileguna, sumarbústaðinn eða hvert sem ferðinni er heitið.

Sumargrænn þeytingur

(4 stór glös/glerkrukkur)

2 stór eða 5-6 lítil grænkálsblöð eða annað grænt kál

3-5 dl frosið mangó eða ananas

1,5-2 cm rifin engiferrót

1 sellerý stöngull

fita: veljið annaðhvort 1 avókadó eða 2 msk kaldpressaða ólífuolíu

sæta: veljið 1 kost: 3-5 litlar þurrkaðar döðlur/ 1 epli/ 2,5 dl af kókosvatni 5 -6 dl vatn (athugið, minna vatn ef þið notið kókosvatn)

Allt sett í kröftugan blandara og blandað vel. Það er gott að breyta stundum til og setja í drykkinn það sem til er. Það má gjarnan setja spírur eða brokkolí saman við. Einnig má bæta út í græna drykkinn: Agúrku, sellerý, lime, hampfræjum, goji berjum, möluðum hörfræjum eða möluðum graskersfræjum. Það er alger óþarfi að setja allt í einu en það er gott að breyta til reglulega til að fá eins mikið af góðum og mismunandi næringarefnum og hægt er.  Njótið vel.