Það styttist í næsta leik hjá stelpunum okkar þar sem þær mæta Svíþjóð í undankeppni EM 2022. Hópurinn hefur hafið undirbúning að fullum krafti og stelpurnar komnar til Svíþjóðar. Leikurinn fer fram á Gamla Ullevi í Gautaborg þriðjudaginn 27.október næstkomandi og hefst hann klukkan 17.30 að íslenskum tíma. Í tilefni af því fengum við eina af landsliðskonunum okkar, Öglu Maríu Albertsdóttur til að gefa okkur í innsýn í mataræði hennar og lífsstíl og deila með okkur uppskrift af sínum uppáhalds rétti. Agla María er uppalin í Kópavogi og spilar fótbolta með meistaraflokki Breiðabliks. „ Ég hef æft knattspyrnu frá því að ég var 7 ára gömul. Ég hef verið í mörgum íþróttum í gegnum tíðina og alltaf lagt mikla áherslu á heilbrigðan lífsstíl. Fyrir utan fótboltann er ég skóla en ég útskrifaðist úr Verzlunarskóla Íslands árið 2018 og er núna í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík og útskrifast í vor.“
Agla María Albertsdóttir landsliðskona í fótbolta.
Hafragrautur með kiwi og niðurskornu epli í morgunmat alla daga
Agla María segir að mataræðið skipti miklu máli þegar maður stundar íþróttir. „Mér finnst mjög mikilvægt að vera bæði vel nærð og orkumikil á bæði æfingum og í leikjum. Á leikdegi borða ég yfirleitt mjög svipað en fer að auðvitað eftir því klukkan hvað leikurinn hefst. Ég byrja nánast alla morgna sama hvort það er leikdagur eða ekki á því að fá mér hafragraut með kiwi og niðurskornu epli út á. Í hádeginu er síðan misjaft hvað ég fæ mér en máltíðirnar enda yfirleitt á því að vera blanda af grænmeti, kjúklingi og hrísgrjónum/pasta/byggi. Þremur tímum fyrir leik fæ ég mér síðan oft hrökkbrauð, orkustykki eða eitthvað álíka.“
Hressandi göngutúr lykilatriði fyrir leik
„Á leikdegi reyni ég að halda rútínu eins vel og ég get og geri það sem ég geri alla jafna. Ég tek alltaf göngutúr til þess að hressa mig við fyrir leikinn en að öðru leyti finnst mér best að halda mér upptekinni með því að læra, lesa eða gera eitthvað þess háttar.“
Einfalt og ótrúlega gott Blómkáls tacos í uppáhaldi
Við fengum Öglu Maríu til að svipta hulunni af hennar uppáhalds rétti og deila með okkur uppskriftinni. „Á mínu heimili gerum við oft góða og holla rétti og ekki er verra ef þeir eru einfaldir í framkvæmd. Blómskáls tacos hefur verið í miklu uppáhaldi upp á síðkastið en við gerum það öðru hvoru enda einfalt og ótrúlega gott.“
Blómkáls tacos að hætti Öglu Maríu landsliðskonu
- 1 stórt blómkál
- 2 msk. olía
- 1 tsk. salt
- ½ tsk pipar
- 1 ½ tsk paprika
Blómkálið saxað nokkuð smátt og sett í eldfast mót. Kryddum og olíu blandað saman við blómkálið og bakað í 25 mínútur við 200°C.
Avócadó sósa
- 1 -2 stk. Avócadó (mjúkt)
- 1 ½ msk. grísk jógúrt
- ½ msk. sítrónusafi
Allt sett saman í skál og maukað saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.
Grænmeti & vefjur
- 1 pakki vefjur/tortillur að eigin vali
- Plómutómatar
- Gúrka
- Iceberg salat
- Sriracha sauce
Grænmetið skorið niður í bita. Smyr vefjurnar með avócadó sósunni, set blómkálið ofan á ásamt niðurskorna grænmetinu og bæti síðan oft örlítið af Sriracha sauce ofan á.
Verði ykkur að góðu og njótið vel.