Holan í veginum

Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum tíðina oft verið fundvís á kosningaslagorð sem hafa náð góðum hljómgrunni meðal kjósenda, aðallega þó ráðvilltra kjósenda. Gott dæmi um það er þegar Framsókn sló í gegn í síðustu kosningum með því að segja nákvæmlega ekki neitt, eftir fjögurra ára setu í ríkisstjórn. Mörgum fannst það raunar vel til fundið hjá Framsókn vegna þess að ríkisstjórn KatrínarJakobsdóttur útvistaði stjórn landsins að mestu kjörtímabilið 2017-2021 til þríeykisins í Covid.

Hinir stjórnarflokkarnir rembdust eins og rjúpan við staurinn við að telja kjósendum trú um að þeir hefðu lyft grettistaki á kjörtímabilinu en hvað gerði Framsókn? Jú, Framsókn spurði kjósendur hvort það væri ekki bara best að kjósa Framsókn. Stöngin inn!

Framsókn hefur oft átt góða spretti í kosningabaráttu. Einu sinni gekk slagorð flokksins út á að Framsókn væri „Kletturinn í hafinu“. Þetta vísaði til þáverandi formanns flokksins. Kjósendur héldu það nú og Framsókn uppskar vel.

Löngu fyrir síðustu aldamót var slagorð Framsóknar: „Vímuefnalaust Ísland árið 2000.“ Framsókn fékk helling af atkvæðum en ekki gekk slagorðið alveg eftir og nú er einmitt verið að vopna lögregluna til að hún geti ráðið við þrautskipulagðar alþjóðlegar glæpaklíkur sem starfa hér á landi, einmitt mikið í tengslum við vímuefni.

Stundum hefur Framsókn verið með óeiginleg slagorð. Í einum kosningum spilaði flokkurinn lagið „Ísland er land þitt“ út í eitt og fékk atkvæði í bílförmum út á að vera þjóðlegur.

Í einum kosningum, sennileg snemma á þessari öld, lét Framsókn litgreina alla frambjóðendur og það svínvirkaði.

Nú stendur Framsókn frammi fyrir því að finna nýtt slagorð fyrir næstu kosningar; eitthvað í anda t.d. „Kletturinn í hafinu“. Spurningin er hvort ekki sé upplagt fyrir flokkinn að horfa til verka sinna í ríkisstjórninni, sem nú hefur setið í sjö ár. Í sex og hálft ár af þeim tíma hefur Framsóknarflokkurinn farið með innviðaráðuneytið og þar með samgöngumálin.

Nú er það nokkuð einróma álit þeirra sem þurft hafa að nota þjóðvegi landsins að ástand vega hafi farið hríðversnandi allt þetta kjörtímabil og einnig hið síðasta. Vegirnir eru að molna og í þjóðvegi eitt má jafnvel eiga von á að keyra fram á djúpar og myndarlegar holur, jafnvel þar sem klæðningin hefur ekki hreinlega fokið af í heilu lagi.

Með hliðsjón af viðvarandi foringjadýrkun í Framsóknarflokknum og því að formaður flokksins hefur borið ábyrgð á vegakerfi landsins í sex og hálft ár síðustu sjö árin er ekki úr vegi að leggja til við Framsókn að slagorð flokksins fyrir næstu kosningar verði: „Holan í veginum“.

- Ólafur Arnarson