Dagfari 20. sept 2016
Forseti Alþingis lýsti því yfir í gær að pappír sem meirihluti fjárlaganefndar undir forystu Vigdísar Hauksdóttur og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um síðari einkavæðingu bankanna væri bara samantekt utan við allar reglur þingskapa og því Alþingi með öllu óviðkomandi.
Eftir stendur að þingmennirnir hafa fíflað fjölmiðla með því að kynna samantektina sem alvöru þingskjal sem unnið hefði verið eftir settum leikreglum.
Dagfari var gestkomandi í pottinum á Akureyri í morgun og heyrði þar á heimamanni sem talaði ósvikna norðlensku að forseti Alþingis hefði ekki í annan tíma sett jafn rækilega ofan í við þingmenn fyrir brot á þingsköpum eins og í þessu tilviki. Þó að Dagafari hafi ekki blandað sér í umræður heimamanna er hann þó sammála því sjónarmiði sem þar kom fram að höfundar þessarar samantektar yrðu að sæta ábyrgð.
Tvímenningarnir kynntu höfundarverk sitt í fjölmiðlum sem rannsóknarskýrslu á Alþingis. Hún átti að sanna glæpi Steingríms J. Sigfússonar og nokkurra embættismanna gagnvart þjóðarhagsmunum. Guðlaugur Þór hefur nú beðið embættismennina afsökunar á því sem samantektin hefur að geyma um þá. En ávirðingarnar á Steingrím virðast standa.
En þetta mál er alveg hætt að snúast um það efni sem birt var. Kjarni málsins er sá að tveir þingmenn hafa misnotað stöðu sína sem forystumenn fyrir þingnefnd til þess að koma höggi á pólitískan andstæðing og nokkra embættismenn. Forseti Alþingis hefur svarið þann verknað af þinginu. Sennilega þurfa menn að ganga verulega fram af þeim dagfarsprúða manni til þess að hann grípi til hirtingar sem vera mun einstæð í þingsögunni.
Vigdís Hauksdóttir er ekki í framboði á ný. En það er Guðlaugur Þór. Dagfari hefur tekið eftir því að Bjarni Benediktsson hefur vikið sér undan því að taka afstöðu málsins með því að segjast ekki hafa lesið plaggið. En nú eru það vinnubrögðin sem hann ber ábyrgð á því að meirihluti fjárlaganefndar hefur tekið þátt í þeim.
Telur Sjálfstæðisflokkurinn að Guðlaugur Þór sé hæfur til að vera í framboði eftir þetta hneyksli? Hvernig ætlar flokkurinn að verja það frá siðferðilegu sjónarmiði að hann leiði lista flokksins í Reykjavík?