Höfundur hrunsins á afmæli í dag

Davíð Oddsson er sjötugur í dag. Af því tilefni birtir Morgunblaðið grein um hann upp á þrjár blaðsíður sem líkist helst minningargrein. Höfundur er Hannes Hólmsteinn sem seint verður sakaður um að halda uppi faglegri gagnrýni á þennan gamla velgjörðarmann sinn.

Ferill Davíðs er merkilegur; borgarstjóri, forsætisráðherra, seðlabankastjóri,ritstjóri og forsetaframbjóðandi.

En ferill Davíðs er í meginatriðum tvískiptur í tímann fyrir og eftir síðustu aldamót. Fyrir aldamót gekk vel í borginni og framan af forsætisráðherraferlinum. En svo fór heldur betur að halla undan fæti.

Davíð hrökklaðist út úr ríkisstjórn eftir að svokallað fjölmiðlafrumvarp markaði upphaf endalokanna á ferli hans vorið 2004. Þá gerðust þau stóru mistök að honum var komið í stól bankastjóra Seðlabanka Íslands sem hann réði ekkert við. Það kom best fram í aðdraganda Hrunsins 2008.

Stærstu mistökin í aðdraganda Hrunsins fólust í vanhugsaðri ákvörðun seðlabankans varðandi yfirtöku á Glitni banka. Með henni var Hruninu ýtt af stað. Því er Davíð stundum nefndur höfundur Hrunsins.

 

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur rak Davíð úr Seðlabanka Íslands en Morgunblaðið tók þá við honum.

 

Árið 2016 bauð Davíð sig svo fram til Forseta Íslands en galt afhroð og hafnaði í 4. sæti með 13%.

 

Davíð Oddsson hefur ekki komist almennilega inn í 21. öldina.

 

Rtá.