\"Ísland er að vissu leyti mjög illa statt hvað varðar myglu. Hér er mikil bleyta og húsin okkar leka. Það er af því að við höfum verið að byggja, hanna og einangra húsin okkar vitlaust í hundrað ár.\"
Þetta fullyrðir Ríkharður Kristjánsson, verkfræðingur hjá Eflu í Fréttablaðinu í dag, en hann hefur sérhæft sig í viðgerðum á raka- og mygluskemmdum um langt árabil. Hann segir íslensk hús oft og einatt vera einangruð röngu megin; þegar hús séu einangruð að innan myndist veruleg hætta á rakauppsöfnun í útveggjum og myglu í framhaldi af því. Á þessu séu eðlisfræðilegar skýringar enda streymi heitt og rakt loft út í útvegginn.
\"Ég varaði við þessu fyrir 35 árum,\" segir Ríkharður í blaðinu í dag \"og síðan þá hefur oft verið bent á áhættuna. En svona er enn byggt, því þetta er þægilegra og ódýrara,\" bendir hann á og bætir við: \"Menn eru líka enn að teikna hús án þess að hugsa um þessa áhættu.\"
Verkfræðingurinn bendir einnig á það í úttekt blaðsins á þessum þráláta vanda að eftirliti sé ábótavant eftir að Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins var lögð niður: \"Það var stofnun sem vakti yfir öllum byggingargöllum á Íslandi og kom í veg fyrir að þeir yrðu eða brást fljótt við,\" segir Ríkharður sem telur í ljósi alls þessa að myglusveppavandamálið á síðustu áratugum sé að stórum hluta á ábyrgð byggingarstéttarinnar, byggingareftirlitsins og ríkisvaldsins.
Sjá einnig nýlega og upplýsandi umfjöllun um myglusveppinn, orsakir og afleiðingar í sjónvarpsþættinum Ég bara spyr hér á Hringbraut.