Höfuðvígi sjálfstæðisflokksins í reykjavík er hrunið

Sjálfstæðisflokkurinn hafði hreinan meirihluta í Reykjavík frá því hann bauð fyrst fram árið 1930 og allt til ársins 1978. Þá missti flokkurinn meirihlutann í eitt kjörtímabil og náði honum aftur vorið 1982.
 
Meirihluti hélst svo til ársins 1994 þegar R-listi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur felldi flokkinn að því er virðist varanlega.
 
Karl Th. Birgisson birtir í Stundinni greinargóða úttekt á valdatíð og hruni flokksins í Reykjavíkurborg. Hér á eftir er vitnað til ýmissa upplýsinga úr grein hans.
 
Flokkurinn var yfirleitt með rúm 50 prósent en rauk upp í 58% vorið 1958 í borgarstjóratíð Gunnars Thoroddsen og fékk 10 af 15borgarfulltrúum kjörna.
 
Í borgarstjóratíð Geirs Hallgrímssonar var fylgi flokksins rétt um 50%, stundum aðeins fyrir neðan. En meirihluti hélst þó vegna dreifingar atkvæða vinstri flokkanna.
 
Vorið 1974 leiddi Birgir Ísleifur Gunnarsson flokkinn til sigurs með 58% og 9 menn kjörna. En vorið 1978 missti hann meirihlutann til vinstri flokkanna þegar Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 47,5% atkvæða.
 
Fjórum árum síðar vann flokkurinn borgina til baka með 52,5% atkvæða og Davíð Oddsson varð borgarstjóri. Fylgið hélst svipað í kosningunum 1986. En vorið 1990 vannst stórsigur, 60,5% atkvæða og 10 menn kjörnir.
 
Þarna átta vinstri menn sig loksins á því að þeir þurfi að stokka spil sín til að eiga einhvern möguleika á árangri. Þá varð R-listinn til og reyndist hann banabiti Sjálfstæðisflokksins í borginni.
 
Vorið 1994 leiðir Árni Sigfússon flokkinn sem fær 47% á móti 53% R-lista sem tók þar með völdin í borginni næstu 12 árin.
 
Árni leiddi flokkinn einnig í kosningunum 1998 og þá fór fylgið niður í 45%.
 
Vorið 2002 ákvað Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að senda þáverandi vin sinn Björn Bjarnason fram á vígvöllinn til að leiða lista flokksins. Það reyndist vera feigðarflan. Flokkurinn hlaut einungis 40% fylgi og 6 menn kjörna sem var versta útkoma hans frá upphafi.
 
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson náði að rétta hlut flokksins í kosningum vorið 2006 með 43% fylgi og 7 borgarfulltrúum. Honum tókst að mynda meirihluta með Framsókn, koma vinstri meirihluta loks frá völdum og varð sjálfur borgarstjóri í 16 mánuði þar til félagar hans í borgarstjórnarflokknum sviku hann undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
 
Hanna Birna varð svo borgarstjóri haustið 2008 og leiddi flokkinn til enn lélegri árangurs en Björn Bjarnason vorið 2002 í kosningunum 2010. Undir forystu Hönnu Birnu fékk Sjálfstæðisflokkurinn einungis 33,6% atkvæða og 5 menn kjörna. Hanna Birna gafst upp í borgarstjórn og fór á þing og varð ráðherra um tíma eins og frægt er að endemum.
 
Enn átti niðurlæging Sjálfstæðisflokksins eftir að aukast í borgarstjórn Reykjavíkur. 
Í kosningunum 2014 hlaut flokkurinn einungis 26% atkvæða og fjóra menn kjörna. Halldór Halldórsson leiddi listann og hefur reynst frekar linur og litlaus leiðtogi. Sama má segja um félaga hans í þessum fámenna borgarstjórnarflokki. Ekkert þeirra hefur haft mikið fram að færa á kjörtímabilinu.
 
Sjálfstæðismenn hafa gert sér vonir um að nú væri komið að því að snúa vörn í sókn.
En þá kemur enn eitt áfallið: umfangsmikil skoðanakönnun sem birtist nýlega sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík er ekkert að rétta úr kútnum. Hann situr fastur með sama fylgi og síðast, einungis 26% og fjóra borgarfulltrúa.
 
Ekki eru nema 23 ár síðan flokkurinn hafði yfir 60% fylgi og 10 borgarfulltrúa. Síðan hefur höfuðvígið hrunið til grunna.
 
Eyðimerkurganga flokksins í Reykjavík mun halda áfram eftir kosningarnar á næsta ári.
 
Sjálfstæðismenn verða að sætta sig við að Dagur B. Eggertsson verði borgarstjóri Reykjavíkur áfram.
 
rtá.