„Að öllu samanlögðu – og hér hefur aðeins verið stiklað á stóru – virðist blasa við að Sjálfstæðisflokkurinn hafi varla annað upp úr krafsinu í þessu ríkisstjórnarsamstarfi en að glata forystuhlutverki sínu í íslenskum stjórnmálum.“
Svona komst Páll Magnússon, fyrrum alþingismaður og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, að orði í lok blaðagreinar sem hann birti í síðustu viku. Páll er einn reyndasti fjölmiðlamaður landsins, hefur gegnt stöðu útvarpsstjóra hjá ríkisfjölmiðlinum auk þess að vera ritstjóri blaða og fréttastjóri sjónvarpsstöðva á áratugalöngum ferli sínum. Auk þess sat hann á Alþingi í fimm ár. Hann hefur því víðtæka reynslu í að greina pólitíska stöðu og strauma á Íslandi.
Páll gagnrýnir harkalega það geðleysi Sjálfstæðisflokksins að hafa aftur myndað ríkisstjórn með Vinstri grænum og leitt sósíalistann Katrínu Jakobsdóttur til öndvegis í ríkisstjórninni að nýju. Hann segir að núverandi ríkisstjórn hafi eiginlega verið mynduð um ekki neitt. Hefðbundnum ágreiningsmálum flokkanna er ýtt til hliðar og þeir hafa í raun og veru neitunarvald hver gagnvart öðrum sem sé óspart notað. Það leiði til kyrrstöðu og ágreinings í mikilvægum málum.
Þingmaðurinn fyrrverandi snýr svo hnífnum í sári Sjálfstæðisflokksins og stráir salti um leið, þegar hann bendir á þá nöturlegu staðreynd að staða flokksins hafi sennilega aldrei verið verri en núna í rúmlega 90 ára sögu hans. Því til stuðnings bendir Páll á að í síðustu borgarstjórnarkosningum hafi fylgi flokksins verið það minnsta sem hann hefur hlotið í Reykjavík frá stofnun og að í síðustu alþingiskosningum hafi fylgi Sjálfstæðisflokksins verið það næstminnsta frá stofnun. Vorið 2009 var það heldur minna.
Þá bendir Páll Magnússon á að allt þetta ár hafi fylgi Samfylkingarinnar verið meira en Sjálfstæðisflokksins í öllum skoðanakönnunum. Þannig hefur forystuhlutverkið færst til þegar Sjálfstæðisflokkurinn er „botnfastur“ í kringum 20 prósenta fylgi. Hann segir einnig að Samfylkingin mælist stærri í öllum kjördæmum landsins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst forystuhlutverk sitt í tveimur af þremur landsbyggðarkjördæmum í síðustu kosningum.
Í blaðagrein sinni skellir Páll Magnússon fjölmörgum óþægilegum staðreyndum framan í forystu flokksins. Þetta er miklu alvarlegra fyrir forystuna heldur en gagnrýni sem kemur frá pólitískum andstæðingum. Það er erfitt að verjast slíkri gagnrýni enda reyna forystumenn Sjálfstæðisflokksins það ekki. Þeir sitja hnípnir og þegja.
Páll Magnússon er ekki eini framámaðurinn í Sjálfstæðisflokknum sem hefur sent forystu flokksins tóninn opinberlega. Arnar Þór Jónsson, fyrsti varaþingmaður flokksins í Suðvesturkjördæmi, hefur verið vægast sagt stóryrtur þegar hann hefur tjáð sig um flokkinn og einstök málefni. Hann hefur látið svo um mælt að haldi flokkurinn sig við að láta samþykkja í þinginu svonefnda bókun 35 á vegum ESB þá muni hann berjast fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn verði lagður í rúst. Hvorki meira né minna.
Arnar Þór Jónsson hefur að vísu enga stöðu til að hóta slíku eða framkvæma. Málflutningur hans er gjörsamlega galinn og fyrir neðan allar hellur. Það breytir ekki því að það skaðar Sjálfstæðisflokkinn að hafa þannig varaþingmann sem flytur mál sitt með þessum hætti. Það hlýtur að vera mjög truflandi og getur ekki hjálpað flokknum við þær erfiðu aðstæður sem hann þarf að glíma við.
Því hefur verið lýst svo að það að vera með Arnar Þór Jónsson sem varaþingmann fyrir fjóra þingmenn jafngildi því að vera með leikmann í knattspyrnuliði sem hafi mestan áhuga á því að skora sjálfsmörk.
Til viðbótar við þann vanda sem gagnrýni Páls og Arnars Þórs veldur má ljóst vera að tveir áberandi þingmenn flokksins eru mjög ósáttir með tilveruna um þessar mundir. Þetta eru þeir Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason sem gegna nú engum lykilstöðum innan þingflokksins og eru sagðir ætla „að gera það sem þeim sýnist“ á komandi þingvetri.
- Ólafur Arnarson