„Vítissódi notaður til að þrífa lambahöfuð til manneldis. Vörur í skemmdum umbúðum, útrunnar vörur, ómerktar og myglaðar. Samkvæmt starfsmanni stöðvarinnar átti að nota þær til framleiðslu smurosts.“
Þetta eru nokkrar af fjölmörgum aðfinnslum sem er að finna í skýrslu eftir að skoðunarmenn frá Eftirlitsstofnun EFTA komu til Íslands í haust til að taka út hreinlæti og hollustuhætti kjöt- og mjólkurafurða. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Skoðuðu þeir búin sjálf, mjólkurstöðvar og sláturhús og hvernig eftirlitsmenn Matvælastofnunar (MAST) störfuðu. Gerðu þeir fjölmargar aðfinnslur og skiluðu skýrslu með tilmælum til MAST um úrbætur.
Á vef Fréttablaðsins kemur fram að á einu mjólkurbúinu var óviðunandi geymsla mjólkur en hún var óvarin skordýrum, þá voru kýrnar skítugar sem eykur hættu á að mjólk mengist.
Þá fundu skoðunarmenn í einni mjólkurstöð skemmdar vörur í umbúðum, útrunnar vörur og myglaðar. Til stóð að nota þessar vörur til að framleiða smurost.
Á öðrum stað voru svuntur þvegnar í vöskum og vítissódi notaður til að þrífa lambahöfuð til manneldis. Þá gerðu skoðunarmenn EFTA athugasemdir við að skrokkar sem þeir fundu í kælum og höfðu verið merktir til manneldis voru óhreinir en í þeim var að finna þarmainnihald og hár.
Í einu sláturhúsi fannst mæna í nautgripaskrokk, eftir að hann var merktur hæfur til manneldis, sem er alls ekki leyfilegt, enda talið sérstakt áhættuefni ásamt heila og augum.
Fréttablaðið ræddi við Freydísi D. Sigurðardóttur, fagsviðsstjóra eftirlits búfjárafurða hjá MAST. Hún sagði skýrsluna ekki áfellisdóm en það þyrfti að taka atriðin til greina.
Hér má lesa frétt Fréttablaðsins í heild sinni.