Í sumar var hart tekist á um breytingar á Rammaáætlun á þingi. Átökin endurspegluðu klofinn vilja þjóðarinnar til virkjunar fallvatna og jarðvarma fyrir mengandi stóriðjur. Ekki hefur verið hægt að sýna fram á óumdeildan hagnað af þessari stefnu þegar allt er tekið með í reikninginn. Skoðanakannanir hafa mælt mikla andstöðu við áframhaldandi stefnu.
Nú er komið fram nýtt hneyksli sem Ríkisútvarpið hefur afhjúpað. Geislavirk efni fylgja borun og uppsópi jarðvarma á Reykjanesi. Það er ekki síst þögnin í kringum málið sem vekur athygli.
Stærsta syndin er e.t.v. sú að heilbrigðisráðherra hafi samkvæmt Rúv fengið veður af málinu og ekki upplýst eigin þjóð um vitneskju sem sannarlega varðar almannahagsmuni að upplýsa. Ítarlegrar rannsóknar er þörf og engan tíma má missa. Kannski hefðu átökin á þinginu í sumar orðið önnur ef Kristján Þór Júlíusson hefði sagt frá því sem hann hefur lengi vitað og hlutaðeigandi yfirvöldum bar að skýra frá.
Ekki dugar að sérfræðingar lýsi því yfir í Kastljósi að þeir séu eitt spurningarmerki vegna þessara geislavirku efna. Svoleiðis yfirlýsing friðar engan heldur þvert á móti. Er þessi efni að finna í öðrum jarðvarmavirkjunum? Eru þau komin í drykkjarvatn er önnur spurning.