Hneyksla sig á smituðum Víði: „Víðir hefði betur hlýtt Víði“

Ís­lenskir net­verjar hneyksla sig nú á Víði Reynis­syni, yfir­lög­reglu­þjóni al­manna­varna og þeim skýringum sem hann gaf í gær­kvöldi á því hvernig hann og eigin­kona hans hefðu smitast af CO­VID-19.

Víðir tjáði sig sjálfur um það hvernig hann smitaðist á sam­fé­lags­miðlum í gær. „Frá því far­aldurinn kom til landsins höfum við hjónin þrengt veru­lega þann hóp sem við höfum um­gengist. Það gerðum við til þess að lág­marka á­hættu á því að bera smit á milli.

Þó gerðist það að við smituðumst og þegar það var stað­fest var ljóst að fólk í okkar nánasta um­hverfi var út­sett fyrir veirunni,“ segir Víðir í færslunni en ekki hefur tekist að komast að því hvar eigin­kona hans smitaðist. Hann segir að vel hafi verið passað upp á fjar­lægða­tak­markanir en ekki nógu vel hugað að snerti­flötum og segir Víðir að smit annarra sýni hversu smitandi veiran er.

Sjá einnig: Fimm til viðbótar úr nærumhverfi Víðis smitaðir: „Þungbært að þetta sé staðan“


Heimili Víðis eins og Hlemmur

Ljóst er að færsla Víðis hefur farið öfugt ofan í marga. Þannig deilir Hjör­dís B. Ás­geirs­dóttir frétt DV af opin­berun Víðis inni á Face­book hópnum Kórónu­veiran CO­VID-19. Hún segist vera hneyksluð.

„Ég á ekki til orð! Maðurinn hefur verið að í­treka á hverjum degi við al­menning að halda sig sem mest heima. Ekki hittast, nota frekar síma og tala saman á netinu í mynd. Mér finnst ekki skipta máli hversu "vel" var gætt að smit­vörnum, þegar hann hefur í­trekað sagt við al­menning að vera ekki að hittast. Hvað gerir hann svo...“ spyr Hjör­dís og rifjar það upp.

„Þetta eru bara á laugar­deginum:
*Hjónin sem gista (koma til Reykja­víkur til að sækja lækna­þjónustu)
*Dætur hjónanna sem gistu (hve margar?)
*Vin­kona
*Börn Víðis (hve mörg) tengda­dóttir og barna­barn
*Önnur vina­hjón um kvöldið.
Hann er al­gjör­lega búin að toppa þetta!“ skrifar hún.

Sjá einnig: Grét þegar hún heyrði að Víðir væri smitaður

„Flestir hafa reynt að fara eftir til­mælum hans og fylgja sótt­varna­reglum og það hefur reynst þeim veru­lega þung­bært. Eins og allir vita hversu þungt þetta legst á þjóðina.

Mér getur ekki annað en fundist það vera mjög ó­svífið af honum að segja að honum finnist staðan vera þung­bær þegar hann leyfir sér svo að hitta alla fjöl­skylduna og vini líka.
Þetta gerist á venju­legum laugar­degi hjá honum, ekki jólunum, á þeim tíma sem það skiptir miklu máli fyrir margar fjöl­skyldur að geta notið jólanna saman..

Heimili Víðis er eins og Hlemmur. Renneríið er svaka­legt á einum degi. Hann er ekki einu sinni að fylgja eftir sótt­varna­reglunum sjálfur. Þetta er svaka­leg van­virðing gagn­vart fólkinu í landinu. Hann sýnir víta­vert kæru­leysi. Þetta er skandall!“

Í at­huga­semdum við færslu Hjör­dísar má sjá að fólk er alls ekki sam­mála um málið. Ein­hverjir furða sig á hátt­erni Víðis á meðan aðrir koma honum til varnar, benda á að hann sé mann­legur og segja hann mann meiri að hafa viður­kennt mis­tök sín að fullu.

Tvö­falt fleira fólk en Al­dís hefur hitt síðan í septem­ber

Hjör­dís er ekki sú eina sem er gáttuð á að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjóninum. Al­dís Coqu­ill­on hefur máls á þessu á Twitter.

„Víðir hefði betur hlýtt Víði og ekki fengið 12 gesti í heim­sókn til sín á 48 klukku­stundum. Það er bók­staf­lega tvö­falt fleira fólk en ég hef leyft mér að hitta síðan í septem­ber.“

Þá segir Stefán Máni, rit­höfundur á miðlinum: „Þannig að sund­laugar og líkams­ræktað­stöðvar voru ekki vanda­málið heldur gesta­gangurinn heima hjá Víði?“