Hlutleysi er ekki góður eiginleiki hjá stjórnmálafræðingi, sagði Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði í samtali við Óðin Jónsson í morgunþætti Rúv í morgun.
Óðinn hafði áður kynnt Svan til leik sem einn helsta stuðningsmann Pírata. Því gæti hann vart tjáð sig sem hlutlaus fræðimaður.
Svanur kenndi lengi við HÍ auk þess sem mikill fjöldi rannsókna liggur eftir hann. Þótti sumum hlustendum sem fyrirvari Óðins væri full hraustlegur og að þetta hlutleysistal væri óþarft í því skyni að rýra Svan trúverðugleika. Sá sem hefur sérmenntað sig og tekið doktorsgráðu í pólitískum fræðum er að jafnaði líklegri til að geta rýnt í samfélagið en hinn óupplýsti. Það á bæði við um Svan og Hannes Hómstein Gissurarson, þótt augljóslega hafi Hannes og Svanur valið sér ólík sjórnarhorn og áherslur innan fræðanna. Sannarlega flokkast hún seint sem stærsta spurning dagsins en á samfélagsmiðlum í morgun hefur fólk spurt: Var kannski bara nóg að kynna Svan til leiks sem stjórnmálafræðing og Pírata? Þurfti þessa hlutleysisaðvörun til?
Svanur lét kynningu þáttastjórnanda ekki ósvarað. Hann sagði Óðni, hinum farsæla fréttastjóra til margra ára, að hlutleysi væri ekki æskilegur eiginleiki hjá stjórnmálafræðingi, sér þætti sem dæmi vænt um virkt lýðræði. Það eitt og sér er afstaða sem gefur til kynna þá skoðun að valdi sé betur komið meðal almennings en hjá sérstakri elítustétt, sem hér á landi hefur haft tilhneigingu til að vera áskrifandi að kjötkötlunum, áratugum saman.
Óðinn hnykkti þá á því að hann hefði nefnt í kynningunni að Svanur væri ekki hlutlaus fræðimaður af því að honum hefði borið að vara hlustendur við því að Svanur gæti dregið taum Pírata „svo við höfum það á hreinu“.
Innan ramma félagsvísindanna draga þó æ fleiri í efa að til sé nokkuð sem megi kalla fræðilegt hlutleysi. Það þykir engin sérstök frétt lengur að hafa þá skoðun eða ástæða til sérstakrar aðvörunar. Sem dæmi tekur fræðimaður ákvörðun sem kann að vera byggð á forhugmyndum eða afstöðu um leið og hann ákveður nýtt rannsóknarefni. Í því felst val sem útilokar þá eitthvað annað. Önnur afstaða er tekin þegar rannsóknaraðferðin er ákveðin. Svipað mætti segja um blaðamennsku, þar sem hugmyndin um hlutlausan blaðamann þykir víða úrelt, á sama tíma og sú krafa lifir góðu lífi að blaða- og fréttamenn leitist í störfum sínum til að vinna faglega hlutlægt og með sanngjörnum hætti í þágu almannahagsmuna.
Síðast en ekki síst spyrja menn sig hvort lesendur, hlustendur og áhorfendur muni framvegis fá eins ítarlega viðvörun þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson, helsti hugmyndafræðingur nýfrjálshyggjunnar til áratuga, verður næst kallaður til sem fræðimaður upp í Efstaleitið.
Sagan segir okkur nefnilega að sumir fræðimenn séu oftar en aðrir kynntir til leiks án nokkurrar viðvörunar.