Að lifa sem unnin kjötvara

Það er merkilegt að vera til. Með endalausum tækniframförum og nútíma vélvæðingu, sem ræðst gegn stritinu sem formæður okkar og forfeður okkar þurftu að leggja á sig, sá hinn bjartsýni og hugdjarfi heimur síðari hluta 20. aldarinnar fyrir, að lífsgæði okkar flestra myndu stóraukast og frí leysa amstur fortíðar af hólmi. Það hefur vissulega orðið til lífsgæðaaukning víða, okkur er ekki lengur kalt á vetrum, við Íslendingar deyjum ekki lengur úr hungursneyð. Samt eru flestir enn á fullu, ófrjálsir og týndir í ímynduðu annríki. Hvert fer tíminn?

Streituspik og upplýsingastress

Tíminn fer m.a. í að fylgjast með. Fylgjast með sjálfum sér og öðrum og bera það tvennt endalaust saman. Með síflæði upplýsinga og samanburðar og þeirrar kröfu að við séum öll inni í öllu hefur skapast nýtt stress, sem kalla mætti upplýsingastress. Upplýsingastressið er komið í stórfjölskyldu ólíkra streituvalda og enn bætist við. Streituspik er einn mesti vandi nútímakvenna sagði prestur í sjónvarpsþætti á Hringbraut á dögunum. Í stað þess að strita frá morgni til kvölds þar sem maður þurfti að nota vöðvaafl,  því að þá voru ekki til vélar, höngum við nú hryggskökk föst í skjámenningu og áhyggjum frá morgni til kvölds. Milli þess sem við förum í ræktina til að kjöta okkur upp, því það yrði agalega stressandi ef við litum ekki eins flott út og starfsmaðurinn við næsta borð á vinnustaðnum.

Ekki val að vera ólesinn

Illa gengur sumsé að losna við stritið, nú hefur það bara færst frá vinnunni yfir í líkamsræktirnar auk þess sem það þrengir sér inn í frístundir í æ ríkari mæli. Hvers vegna? Kannski vegna þess að við höldum að við töpum samkeppnishæfi ef við erum ekki alltaf á tánum. Það er ekki nóg að vinna vel og mikið – helst hafa hugann alltaf við vinnuna, við þurfum líka að vera vel með á nótunum hvað varðar t.d. listir, vísindi, íþróttir eða þjóðmál. Út kemur áhugaverð bók. Það getur í huga margra skilið á milli feigs og ófeigs að þykjast hafa lesið hana því þá fyrst verður bókin til þegar við höfum sagt eitthvað um hana, ekki verra að það birtist á facebook. Vinur minn einn sem starfar að bókaútgáfu sagði mér sögu um daginn. Að fyrir nokkrum áratugum hafi Íslendingar gefið sér tíma til að lesa bækur, svo hafi þeir vegna annríkis farið að stytta sér leið, látið duga að lesa bókadóma og rætt þá bókina eins og þeir hefðu lesið hana. Nú sé enginn tími lengur til að lesa neitt lengra en sem nemur einu wordskjali í skjástærð. Galdurinn sé að hitta fólk sem hafi lesið bókadóm. Maður pikki svo upp nokkrar setningar úr orðum kunningjans og þykist hafa lesið. Með því verði viðkomandi samræðuhæfur í næsta kokteilboði, dauðstressaður þó að upp um komist. Ekki sé í boði að svara að maður hafi ekki lesið bókina. Við verðum að þykjast hafa lesið bókina.

Sjálfsköpuð streita

Lærdómur sögunnar er að við erum sífellt að setja á okkur sjálfskipaða streitu. Það að sigla gegn meginstraumi er ekki val í margra huga heldur verðum við að þykjast betri, hraustari og klárari en við erum, annars föllum við í verði á einhverjum ímynduðum markaði, glötum samkeppnishæfi. Í fáum orðum sagt má spyrja hvort óttinn stjórni för of margra. Þrátt fyrir alla lífsgæðabreytinguna. Og þá má líka spyrja sig: Í hverju felast lífsgæði ef við erum alltaf hrædd um að vera ekki nógu góð? Ef okkur líður eins og við þurfum að þykjast meiri og betri en við erum, sem aftur skapar kvíða og ótta um að upp um okkur komist. Því sá maður sem er hann sjálfur hlýtur að vera í mestum tenglsum við umhverfi sitt. Mestar líkur eru á að svoleiðis fólki líði vel. Að tengjast náttúrunni og fegurð hennar er ein góð leið til afreitrunar.

Að lifa sem unnin kjötvara

En það er meira en að segja það að líða vel í umhverfi sem gengur út á að við styttum okkur endalaust leið, nýtum allan okkar tíma til þess að reyna að spara tíma. Við spörum tíma til að geta orðið eins og unnu kjötvörurnar sem eru víst krabbameinsvaldandi. Nútímamaðurinn er á góðri leið með að verða krabbameinsvaldandi kjötfars, af því að allt skal taka eins lítinn tíma og framast má verða.

Það verður til þess að við hættum að njóta. Við erum með endalaust samviskubit yfir því að komast ekki yfir meira af tíma. Ein afleiðingin er að að síðustu stundirnar fyrir nætursvefninn liggur hjónafólk víða um land flækt í rafmagnssnúrur, hleðslutæki og eyrnabúnað. Tölvurnar, símarnir, skjámenningin gervöll hefur tekur yfir þar sem áður voru hin helgustu vé.  Engin leið út. Nema þá kannski að endurheimta sjálfsveru okkar og forræði til að vera við sjálf. Neyta þess sjálf sem við viljum neyta, vinna ekki aðra atvinnu en okkur er greitt fyrir að inna af hendi. Leyfa okkur að borða vel af góðum mat ef okkur langar til þess, hreyfa okkur bara þegar okkur langar að hreyfa okkur og hætta að spegla okkur endalaust með augum píreygðra ímyndaðra broddborgara, tilbúins samanburðarsamfélags sem leyfir sér að setja allt á markað, líka lifandi sálir.

Við stöndum sjálf fyrir þessum samanburði, við viðhöldum honum og styrkjum hann hverja stund sem við æ vitgrannari og án gagnrýninnar hugsunar fljótum sofandi að feigðarósi.

Hvernig hljómar sú hugmynd að breyta þessu?

(Þessi pistill birtist fyrst á Kvikunni á hringbraut.is - höfundur: Björn Þorláksson)