Björn Róbert Jensson viðskiptafræðingur sem rekur fjármálaráðgjöfina Stopp.is fyrir einstaklinga segir að það sé allt of algengt að hjón og sambúðarfólk ræði ekki fjármál sín á milli. Þetta kom fram í þættinum Fólk með Sirrý á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gær en þeir fjalla um allt sem manninum viðkemur í blíðu og stríðu.
Í máli Björns kom fram að oftast vinni báðir aðilar fulla vinnu úti en aðeins annar aðilinn sér um reikninga og annast fjármál fjölskyldunnar. Það komi of oft fyrir að fjárhagsvandi sé ekki ræddur og hinn aðilinn komi þar af leiðandi af fjöllum þegar bíllinn eða húsnæðið er komið á uppboð.
Björn hefur sjálfur ratað í alvarlegan fjárhagsvanda eftir dýrt nám sem hann fékk svo ekki vinnu við. Hann afréð að söðla um og læra viðskiptafræði til að uppfræða almenning um leiðir til betra bókhalds heima fyrir. Hann hvetur fólk til að setjast niður ræða opið um fjármálastöðuna og reyna að hafa gaman af því að spara og sjá um þetta saman.
Þáttinn má nálgast í heild sinni á hringbraut.is, eða klippur úr honum.