Eins og hefur örugglega ekki farið fram hjá neinum er Bolludagurinn í nánd og margir taka forskot á sæluna og eru byrjaðir að baka og raða í sig bollum. Heimatilbúnar bollur eru ávallt vinsælar og margir eiga sína uppáhalds bolluuppskrift og fyllingu. Möguleikarnir á fyllingum eru óþrjótandi og hver og einn getur valið sér þá fyllingu sem bragðlaukarnir girnast.
Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður á LEX er ein þeirra sem nýtur þess að baka bollur með börnunum sínum og leikur við sinn hvern fingur þegar kemur að því setja saman kræsingar sem kitla bragðlaukana. Hún og Helgi sonur hennar, tóku forskot á sæluna, bökuðu bollur sem snæddar voru strax að hjartans lyst.
„Mér finnst bolludagurinn alltaf mjög skemmtilegur og tek yfirleitt alltaf forskot á sæluna. Reyndar var ég á gönguskíðanámskeiðinu „Bara ég og stelpurnar“ á Ísafirði í fyrra, þannig að ég bakaði ekki, en þá var ótrúlegt úrval af bollum í bakaríinu, alls konar samsetningar og frá öllum heimshornum. Svo urðum við svo heppnar að verða veðurtepptar þannig að við fengum geggjaðan aukadag á skíðum og nægan tíma til að gera bollunum góð skil,“ segir Kristín dreymin á svip.
„Sjálfri finnst mér alveg nauðsynlegt að hafa vanillukrem í bollunum og svo líka berjarjóma. Hins vegar sveiflast ég á milli þess að vilja frekar vatnsdeigsbollur eða gerbollur. Þess vegna læt ég tvær uppskriftir fylgja. Vatnsdeigsbollur með hindberjarjóma og kardimommubollur með vanillukremi. Vatnsdeigsbollurnar eru hefðbundin uppskrift, kardimommubolluuppskriftin hefur orðið til hjá mér í gegnum árin og vanillukremið er af norskum uppruna. Svo er um að gera að blanda og breyta, bæta við sultu eða þeyttum rjóma og súkkulaði.“
Vatnsdeigsbollur
4 egg
125 g hveiti
125 g smjör
2 ½ dl vatn
200 brætt súkkulaði að eigin vali á lokið (gott að dýfa lokinu í brætt súkkulaði eftir að bollurnar hafa verið fylltar).
- Þeytið eggin saman, mælið hveitið. Sjóðið smjörið og vatnið saman, takið pottinn af hellunni og hrærið hveitinu út í þar til deigið losnar frá pottinum. Látið kólna aðeins.
- Hræðið eggjunum við í smá skömmtum, þangað til deigið er glansandi en ekki fljótandi. Ekki er víst að nota þurfi alla eggjablönduna.
- Sprautið deiginu á plötu eða setjið á með skeið. Bakið við 190°C í um það bil 25 mínútur.
- Mér finnst best að taka eina bollu út fyrst og sjá hvort hún heldur forminu. Ef hún fellur baka ég bollurnar í nokkrar mínútur í viðbót.
Ég fæ um það bil 20 bollur úr uppskriftinni en auðvitað fer það eftir hvort fólk vill hafa bollurnar nettar eða stórar.
Hindberjarjómi
5 dl rjómi
1 msk flórsykur
1 dl hindber
Þeytið rjómann með flórsykrinum og hrærið svo berin saman við með sleif eða sleikju.
Kardimommubollur
25 g ger
3 msk volgt vatn
200 g smjör
3 egg
400 g hveiti
65 g sykur
1 tsk. kardimommur
- Leysið gerið upp í vatninu i hrærivélarskálinni. Bætið öllu öðru í og hnoðið. Látið hefast í 45 mínútur.
- Stráið hveiti á borðið, fletjið deigið út svo það sé um það bil 2 cm þykkt. Stingið út kringlóttar kökur og setjið á bökunarplötu. Látið hefa sig aftur í 30 mínútur.
- Mótið holu í hverja bollu og penslið með eggi. Bakið við 250°C í um það bil 10 mínútur.
- Þegar ég sker bolluna í sundur sker ég fyrir ofan botninn á holunni til að fá fallegt gat í lokið. Í þetta skipti mótaði ég holuna sem hjarta.
Vanillukrem
2 stk vanillustangir
4 stórar eggjarauður
5 dl rjómi
1 dl sykur
4 msk maisenna
- Kljúfið vanillustangirnar og skafið fræin úr. Setjið eggjarauður í skál og hærið rjómanum saman við með gaffli. Setjið sykur, maisenna, vanillufræin og vanillustangirnar saman í pott, setjið á vægan hita og þeytið rjómablöndunni saman við. Passið að vanillustangirnar haldist heilar.
- Þegar kremið hefur þykknað hellið því í skál og kælið. Kremið hefur þykknað nóg þegar það helst á sleif sem dýft er í pottinn. Passið að hita kremið ekki of mikið eða of lengi þá getur það skilið sig. Mér finnst gott að þeyta kremið upp áður en ég set það á bollurnar.