„Er ekki frekar hljótt um ástandið á Öxnadalsheiði? Þetta er tenging Akureyrarsvæðisins við vestanvert landið sem er ítrekað rofin dögum saman. Nú bætist snjóflóð við.“
Þetta segir Hjalti Jóhannesson, landfræðingur og sérfræðingur í byggðaþróun við Háskólann á Akureyri, á Facebook-síðunni Umræður um byggðaþróun.
Þrjú snjóflóð féllu á þjóðveg 1 um Öxnadalsheiði um helgina og lentu nokkrir vegfarendur í einu flóðinu. Veður á þessum slóðum á það til að vera slæmt, einkum að vetrarlagi, og er oft ófært yfir heiðina þegar mikið snjóar og skefur.
Umræða um göng undir Öxnadalsheiði er ekki ný af nálinni en í könnun sem unnin var fyrir Samgöngufélagið sumarið 2019 kom fram að rúmlega 40 prósent svarenda vildu tíu kílómetra veggöng undir heiðina. Þá hefur einnig verið rætt um Tröllaskagagöng, 15-20 kílómetra jarðgöng, undir Tröllaskaga milli Sauðárkróks og Akureyrar.
„Raunar finnst mér rangt að tala um heiði. Þetta er fjallaskarð gegnum Tröllaskagann í 540 m hys. og annar hæsti punkturinn á hringveginum. Göng undir heiðina samkvæmt svæðisskipulagi Eyjafjarðar þurfa að komast á dagskrá sem fyrst,“ segir Hjalti en færslan fær góðar undirtektir.
Benedikt Sigurðarson stjórnsýslufræðingur segir að mikilvægt sé að setja varanlega vegagerð, til dæmis með jarðgöngum undir heiðina, á dagskrá.
„Kunningi minn sem hefur sérþekkingu í jarðvegsverkfræði telur að það komi vel til greina að gera "yfirbyggðan skurð" í gegn um heiðina - - og fara nærri gamla vegstæðinu. Síðan mætti framlengja með yfirbyggingu - eins langt og þurfa þykir til að losna við óveðursskafrenninginn - - og snjóflóðahættuna".“