Eiríkur Rögnvaldsson málfræðingur er allt annað en sáttur með pistill Kolbrúnar Bergþórsdótturí Fréttablaðinu í dag.
Pistilinn var til umræðu í Málspjallinu á Facebook og er ljóst að skrifin hafa valdið einhverjum usla.
Kolbrún skrifaði um tungumálið okkar og þær breytingar sem hafa orðið á því á undanförnum árum; einkum þá staðreynd að málið er hægt og bítandi að verða kynhlutlaust.
„Sú sem þetta skrifar hefur ákveðið sem blaðamaður að fylgja þessu og forðast orð í karlkyni eins og heitan eldinn, en eins og alkunna er þá er tungumálið illa smitað af karlrembu, eiginlega útbíað. Úbs, afsakið mig, sú sem þetta skrifar ruglaðist illilega og ætlaði að segja að hún hafi „ákveðið sem blaðakona“
Eiríkur segir þetta grín ekki vera fyndið: „Mér finnst ósmekklegt og ekki fyndið að hæðast að málnotkun og málbeitingu fólks. Það er eðlilegt að skoðanir séu skiptar um málbreytingar í átt til kynhlutleysis en skrif af þessu tagi eru ekki til þess fallin að efla málefnalega umræðu,“ segir Eiríkur.
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason kemur hins vegar Kolbrúnu til varnar og segir að um háð sé að ræða.
„Þetta er nú bara skemmtilegur háðpistill – og eins og hún Kolla bendir á, þá er gríðarlega erfitt að nota hið svokallaða mál beggja kynja án þess að reka mjög fljótt í vörðurnar. Og svo er til fólk sem telur sig hafa vald á málbreytingum en hefur það ekki. Til dæmis sagði í pistli um atriði á Listahátíð í útvarpinu um daginn – „hán þekkta listakvár“. Þetta er auðvitað vitlaust – þarna er „hán“ notað sem laus greinir en persónufornafn,“ sagði Egill.
Pistill hefur verið til umræðu víðs vegar á netinu í dag og hafa margir tekið honum fagnandi á meðan aðrir saka Kolbrúnu um að reyna vekja úlfúð á kynhlutlausum einstaklingum.