Hinir skattlausu - og tekjulágu

Fjölmiðlar hafa keppst við að birta upplýsingar um tekjur þeirra sem mest greiða í sameiginlega sjóði landsmanna eftir að skattskrár voru lagðar fram og tekjublöð FV og DV komu út.
 
Ekki er síður forvitnilegt að átta sig á hinum sem telja afar lágar tekjur fram til skattlagningar. Vitanlega getur það stafað af lágum tekjum fólks sem kallar á samúð.
 
Verra er að sjá skrítnar tölur hjá fólki sem vitað er að hefur mikið umleikis og er að gera það gott í daglegum störfum. Þannig má nefna að afar lágar framtaldar tekjur margra listamanna sæta undrun. Metsöluhöfundar og vinsælir hljómlistarmenn virðast t. d. margir lepja dauðann úr skel. 
 
Erfitt er að skilja það sem og sitthvað fleira sem kemur í ljós þegar litið er á eftirfarandi
dæmi um þekkta Íslendinga sem töldu afar lágar mánaðartekjur fram til skatts vegna ársins 2016. Um er að ræða launatekjur á mánuði árið 2016:
 
Valgeir Guðjónsson Stuðmaður 93 þús. kr., Birgitta Haukdal söngkona 80 þús. kr.,
Gunnar Þórðarson tónskáld 37 þús. kr.,
Jónína Leósdóttir rithöfundur 90 þús. kr.,
Hallgrímur Helgason metsöluhöfundur 146 þús. kr., Ólafur Arnarson formaður Neytendasamtakanna 157 þús. kr. Björn Valur Gíslason varaformaður Vinstri grænna 175 þús. kr., Óskar Örn Hauksson atvinnuknattspyrnumaður í KR 36 þús. kr., Ólafur M. Magnússon framkvæmdastjóri KÚ 25 þús. kr., Benedikt Sveinsson fyrrum stjórnarformaður Íslands og faðir forsætisráðherra 68 þús. kr., Þorsteinn Hjaltested fyrrum skattakóngur 146 þús. kr. og Friðjón Þórðarson verkefnastjóri hjá GAMMA 15 þús. kr.
 
Vert að sýna bágri stöðu fólks skilning ef staða þess er slæm í raun og veru.
 
Sé fólk aftur á móti að svíkjast um, lendir það á okkur hinum sem þurfum þá að bera stærri hluta af sameiginlegum útgjöldum samfélagsins.
 
rtá.