Linda Ben köku- og matarbloggari, höfundur uppskriftarbókar og sælkeri bakar ávallt sínar eigin bollur og heldur í hefðirnar sem fylgja bolludeginum með fjölskyldu sinni. „Við erum alltaf með bollukaffi á sunnudeginum og svo fiskibollur eða kjötbollur í kvöldmatinn á mánudeginum.“ Linda á góðar minningar í tengslum við bolludaginn og hefur speglað þær til barnanna sinna. „Ég elskaði bolludaginn sem barn, hjálpaði mömmu að baka bollurnar og við föndruðum bolluvönd saman.“ Lindu finnst hefðin kringum bolluvendina skemmtileg og hefur kynnt hana fyrir sínum börnum. „Þau föndra bolluvendina sína sjálf og finnst það mjög skemmtilegt,“ segir Linda og finnst fátt skemmtilegra en að baka og föndra með börnunum. Það stendur ekki á svari hjá Lindu bakstursdrottningu með meiru þegar hún er spurð hvort hún sé hrifnari af vatnsdeigsbollum eða gerbollu. „Vatnsdeigsbollurnar eru í uppáhaldi hjá mér og hafa ávallt verið.“ Linda ljóstrar hér uppskriftunum af sínum uppáhalds bollum og fyllingum sem eiga hug hennar þessa dagana.
Hindberja bolludagsbollur með vanillukremsrjóma
- Vatnsdeigsbollur
- Hindberjasulta
- Vanillukrem
- 300 ml rjómi frá Örnu Mjólkurvörum
- 400 g Hindber
- Flórsykur
Aðferð
- Byrjið á því að útbúa vanillukremið, sjá uppskrift hér fyrir neðan.
- Gerið næst vatnsdeigsbollur, sjá uppskrift hér fyrir neðan.
- Þeytið rjómann og blandið honum saman við vanillukremið.
- Opnið vatnsdeigsbollurnar, setjið hindberjasultu í botninn, vanillukremsrjómann yfir og loks hindber. Lokið og sigtið flórsykri yfir.
Vatnsdeigsbollur
- 125 g smjör
- 1 msk.sykur
- 275 ml vatn
- 170 g hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- ½ tsk. salt
- 3-4 stk. egg
Aðferð
- Kveiktu á ofninum og stilltu á 180°C hita og blástur.
- Smjör, sykur og vatn er sett í pott og soðið saman í 2-3 mínútur. Slökktu svo undir pottinum.
- Hveiti, lyftiduft og salt er sett í skál, bættu því út í smjör-vatnið og hrærðu vel saman með sleif. Deigið á að vera þétt og lyftast upp frá brúnum pottsins. Láttu standa í 5 mínútur. Færðu deigið í hrærivél.
- Settu þrjú egg út í deigið, eitt og eitt í einu og hrærðu þau vel saman við deigið. Vegna þess að egg eru misstór eru mismunandi hversu mikið þú þarft af seinasta egginu. Áferðin á deiginu á að vera þannig að deigið lekur hægt og svolítið erfiðlega af sleifinni á nokkrum sekúndum. Deigið á að halda nokkur veginn sömu lögun eftir að þú setur það á plötuna en ekki leka út og verða flatt. Settu seinasta eggið í litla skál og hrærðu það saman. Settu 1 matskeið af egginu í einu út í og hrærðu vel á milli þangað til þú ert komin með rétta áferð á deigið.
- Settu smjörpappír á ofnplötu og settu deigið í sprautupoka eða matskeiðar til að útbúa bollurnar (2 matskeiðar ein bolla). Hafðu gott pláss á milli bollanna því þær stækka mikið í ofninum, gott að miða við um það bil 12 bollur á hverja plötu.
- Bollurnar eru bakaðar í 20-25 mínútur en ekki opna ofninn fyrr en allavega 20 mínútur eru liðnar. Þá er hægt að taka eina út og meta hversu margar mínútur bollurnar eiga eftir, en þú sérð það þegar þú opnar bolluna og sérð hversu blaut hún er inní.
Vanillukrem
- 500 ml nýmjólk frá Örnu Mjólkurvörum
- fræin úr 1 vanillustöng
- 1 egg
- 1 eggjarauða
- 100 g sykur
- 30 g kornsterkja/maizena mjöl
- 25 g smjör
- ½ tsk. salt
Aðferð
- Byrjað er á því að útbúa pastry cream með því að setja mjólkina í pott ásamt vanillu fræjunum í pott og hitið hana að suðu en slökkvið um leið undir og þegar byrjar að sjóða.
- Setjið egg, eggjarauðu, kornsterkju og sykur í skál og hrærið saman. Hellið 1/3 af heitu mjólkinni út í skálina með hrærivélina í gangi. Þegar allt hefur blandast saman hellið þá eggjablöndunni aftur ofan í pottinn með restinni af mjólkinni. Kveikið aftur á hitanum undir pottinum og hrærið stanslaust í blöndunni þar til hún hefur þykknað mikið og aðeins breytt um lit. Slökkvið þá undir pottinum og hrærið smjörið og saltið saman við.
- Hellið blöndunni í eldfast mót sem passar í ísskáp og leggið plastfilmu yfir, kælið.
Karamellu kropps bolludags bollur
- Vatnsdeigsbollur
- 500 ml rjómi
- 150 g Nóa rjómakúlur
- 50 ml rjómi
- 2 dl flórsykur
- 150 g Siríus karamellukurl
Aðferð
- Setjið rjómakúlurnar í pott og bræðið með 50 ml rjóma, leyfið henni að kólna örlítið.
- Létt þeytið rjómann og bætið út í 2 matskeiðum af karamellunni, fullþeytið rjómann.
- Bætið 100 g af karamellukurli ofan í rjómann, blandið varlega saman.
- Skerið bollurnar í helminga og fyllið þær með rjómanum, lokið bollunum.
- Setjið flórsykur ofan í karamelluna og blandið saman. Setjið karamelluna ofan á bollurnar og skreytið með karamellukurli.
Linda Ben er mikill sælkeri og fer létt með að töfra fram gómsætar bollur. Fréttablaðið/Stefán Ernir.
Gaman er að bera bollurnar fram á fallegum kökudiskum og/eða brettum sem gleðja augað. Einnig er hægt að skreyta bollurnar með blómum eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug.