Þessa dagana er það nesti barnanna sem tekið er til á mörgum heimilum á morgnana og stundum virðist alltaf vera hið sama sem fer í nestisboxið. Því er ávallt gaman að fá góðar hugmyndir og gera stundum dagamun á nestinu og læða einhverju gómsætu sem gleður lítil hjörtu. María Gomez lífstíls- og matarbloggari sem heldur úti síðunni paz.is er ávallt með puttann á púlsinum þegar kemur að því að gleðja matarhjörtu bæði lítil sem stór. Hér er komin ljúffengt uppskrift af pizzuhálfmánum sem erfitt er að standast sem er einfalt að gera og enn auðveldara að njóta.
„Oft finnst mér erfitt að finna til nesti fyrir krakkana og á það til að gera oft það sama aftur og aftur. Því finnst mér tilvalið að eiga eitthvað svona sniðugt í frystir sem ég get potað í bitaboxið svona spari eins og á föstudögum. Þessir hálfmánar eru í hollari kantinum, hér notast ég við lífrænt ræktað hráefni frá MUNA sem eins og þið kannski vitið ég elska,“segir María sem elskar að útbúa hollt og gott nesti fyrir börnin sín.
Kosturinn við þessa uppskrift er að deigið þarf ekkert að hefast og því tekur stuttan tíma að undirbúa þessa himnesku hálfmána sem gleðja unga sem aldna. „Fyllinguna hræri ég svo saman í eina skál, en í henni er bara lífræn tómatpúrra, agavesíróp, ostur, krydd og pepperóní.“
Pizzadeig
300 g fínt Spelt frá MUNA
1 tsk. fínt salt
1 msk. vínsteinslyftiduft
350 g grísk jógúrt
Fylling
3 msk. Tómatpúrra frá MUNA
3 msk. heitt vatn
½ tsk. fínt salt
1 msk. MUNA agave síróp
1 tsk. þurrkað oregano
2 dl rifinn mozzarella ostur
10 sneiðar pepperóní
Byrjið á deiginu
- Blandið saman spelti, salti og vísnteinslyftidufti og hrærið með skeið saman
- Bætið svo jógúrtinni út í og hnoðið í kúlu.
- Fletjið svo deigið út í þunnan ferning og skerið út hringi með hringskera eða glasi, ég notaði hringskera sem var 8 cm í þvermál.
- Takið svo allt umframdeig sem verður eftir á milli hringjanna og fletjið það út og skerið fleiri hringi úr því þar til allt deigið er búið.
- Mér fannst síðan gott að fara aðeins yfir hringina aftur með kökukeflinu til að fá þá aðeins þynnri og ögn stærri.
Fylling
- Byrjið á að sjóða vatn og setja tómatpúrru í stóra skál.
- Hellið svo heita vatninu út í tómatpúrruna og hrærið vel saman og bætið svo agave, salti og oregano saman við og hrærið vel saman.
- Setjið næst ostinn og klippið pepperóní út í og hrærið öllu vel saman í skálinni.
Samsetning og bakstur
- Stillið ofninn á 190 C° blástur eða 200 C°ef þið eigið ekki blástursofn.
- Setjið svo 1 tsk. af fyllingu á miðjan deighring og brjótið svo hringinn saman í tvennt og klemmið á endunum annað hvort með puttunum eða getið líka notað gaffal.
- Passið að hver hálfmáni sé vel lokaður á endunum svo það leki ekki fyllingin úr.
- Raðið svo á bökunarplötu með smjörpappa og stingið í ofninn í 12-15 mínútur eða þar til hálfmánarnir eru orðnir fallega gylltir.
Ef þið viljið frekar gera pizzasnúða úr þessari uppskrift er það vel hægt líka en ykkar er valið. Mér finnst gott að eiga svona hálfmána í frystir og taka svo bara út eftir þörfum en gott er að stinga þeim í rista vel til að fá þá aftur heita og eins og nýbakaða.
Svo ljúffengir og föngulegir að sjá./Ljósmyndir María Gomez.