Hildur flaggar orðaleppum frá skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins

Hrein örvænting virðist vera að ná tökum á Hildi Björnsdóttur leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. Undir hennar forystu fékk flokkurinn minnsta fylgi í borginni sem mælst hefur, einungis 24,5 prósent, og missti 6,3 prósentustig frá síðustu kosningum fyrir fjórum árum. Við það tapaði flokkurinn tveimur borgarfulltrúum. Í ljósi þess er nánast broslegt að heyra hana tala um slæma útkomu annarra flokka í borginni.

Átta flokkar fengu borgarfulltrúa kjörna. Einungis þrír flokkar bættu við sig fylgi en það voru Píratar, Sósíalistaflokkur Íslands og Framsókn. Hinir fimm töpuðu allir fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn þó langmestu, bæði í prósentum og fulltrúatölu. Í ljósi þessa er stærilæti Hildar nú innihaldslaust.

Að slá um sig með stóryrðum er einkenni þeirra sem eru í vonlausri stöðu. Hildur hefur fengið að láni orðalepp frá skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins og talar um „klækjastjórnmál“. Hugtakið er úr smiðju Hannesar Hólmsteins og Andrésar Magnússonar sem notaði það einmitt á forsíðu Morgunblaðsins í gær. Þar var það notað vegna tilraunar þriggja flokka til að taka þátt í myndun meirihluta í borginni.

Í örvæntingu sinni notar Hildur einnig hugtakið „þrjóskubandalag“ og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir, sem leiðir hinn arm Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarflokknum, talaði í gær um „andlýðræðisleg“ vinnubrögð vegna þess að þrír eða fjórir flokkar í borgarstjórn Reykjavíkur leyfa sér að hafa þá skoðun að þeir vilji ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum! Ekkert er „andlýðræðislegt“ við það að hafa skoðanir í pólitík – jafnvel þótt þær skoðanir falli kjörnum fulltrúum Sjálfstæðisflokksins ekki í geð.

Ættu forystukonur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ekki að líta í eigin barm og velta því fyrir sér í fyrsta lagi hvers vegna flokkur þeirra fær nú minna fylgi en áður í Íslandssögunni í borgarstjórn Reykjavíkur, eða 24,5 prósent og í öðru lagi hvers vegna flokkar vilja alls ekki vinna með flokknum, eins og Píratar, Sósíalistaflokkur Íslands, Viðreisn og sennilega einnig Samfylkingin, í borgarstjórn?

Fylgistapið milli kosninga hjá Sjálfstæðisflokknum skýrir sig sjálft. En ástæður þess að flokkar vilja ekki vinna með flokknum í Reykjavík eru meðal annars þær að Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í tvennt og ekki eykur það á traust gagnvart honum. Þá er líklegt að þeir sem vilja ekki vinna með flokknum hafi aðrar grundvallarskoðanir en flokkurinn og einhverjir hafa gengið svo langt að tala um að Sjálfstæðisflokkurinn sé spilltari en aðrir flokkar á Íslandi. Um það er þó erfitt að dæma.

Með öðrum orðum: Þeir sem kjósa að vinna ekki með Sjálfstæðisflokknum hafa sínar ástæður fyrir því. Og þeim er það fullkomlega heimilt og ekkert er „andlýðræðislegt við það.

Ragnheiður Alda verður að horfast í augu við að valdaflokkur hennar fær ekki ráðið öllu sem hann vill. Ekkert er dularfullt við það. Hún og aðrir flokksmenn verða að horfast í augu við það og búa sig undir næstu fjögur ár í valdalausum minnihluta í Reykjavík. Lífið er ekki alltaf dans á rósum.

- Ólafur Arnarson