Hið mjúka val

Fréttablaðið fjallaði í síðustu viku um tíst Donalds Trump á samfélagsmiðlinum Twitter. Tilefnið var að hann hefur verið 1.000 daga í embætti. Tístið hefur einkennt forsetatíð hans og hægt hefur verið að fylgjast með í rauntíma hvað forsetanum er efst í huga. Þetta háttalag kann að henta á heimavettvangi þótt orð fjúki sem varla eru djúphugsuð og ekki í þeim anda sem menn hefðu vænst af manni í einu valdamesta embætti veraldar. Það embætti krefst íhugunar, umhugsunar og rólegrar, yfirvegaðrar og rökréttrar ákvarðanatöku en um leið mikillar festu og ákveðni.

Með forsetann í huga sagði Christine Lagarde, verðandi bankastjóri Seðlabanka Evrópu, í síðustu viku að þjóðarleiðtogar yrðu að hegða sér eins og fullorðið fólk. Þeir þyrftu að semja um lausn á viðskiptadeilum og taka rökréttar ákvarðanir. Hún taldi að tíst forsetans gæti dregið úr stöðugleika á mörkuðum á heimsvísu. Stöðugleiki næðist vart nema ráðamenn hegðuðu sér eins og menn, tækju allt til umræðu og semdu sig að niðurstöðum.

Hér er vert að hafa í huga það sem Joseph S. Nye, prófessor emeritus í opinberri stjórnsýslu við Harvardháskóla, hefur ritað um áhrifamátt ríkja. Hann var ráðgjafi Jimmys Carter forseta og aðstoðarvarnarmálaráðherra í stjórn Bills Clinton.

Nye er þekktur fyrir kenningar um „hinn mjúka mátt“ andstætt hefðbundinni valdbeitingu með hernaðarmætti eða efnahagsmætti ríkja. Ríki geti fengið önnur ríki til liðs við sig með óbeinum hætti.

Fá ríki hafa haft meira mjúkt vald en Bandaríkin. Hið mýkra vald er æ meir megandi í flestu samstarfi þjóða. Þannig getur áhrifamáttur ríkja falist í siðferði, hugmyndum, lífsmynstri, kunnáttu og samstarfsfærni. Önnur ríki fylgja fordæmum vegna þeirra gilda sem þau leggja áherslu á eða ríki nýtur virðingar af einhverjum ástæðum. Áhrifin er sjaldnar að finna í hernaðarmætti, rembingi eða ríg.

Nye hefur sagt að mikilvægi hins mjúka máttar í utanríkismálum eigi eftir að verða æ meira. Einstefna, hroki og einangrunarhyggja dragi úr áhrifum stórvelda. Menningarlegt aðdráttarafl og nýsköpun eykur þannig áhrifamátt ríkja meira en skotgrafir.

Að sama skapi segir Nye að hefðbundin valdbeiting í þágu þjóðarhagsmuna kunni að vera nauðsyn en það megi ekki beita valdi á kostnað hins mjúka máttar. Bandaríkin verði að standa við alþjóðlegar skuldbindingar og hvetja til alþjóðlegs samstarfs og frjálsra viðskipta. Þannig tryggi Bandaríkin stöðu sína.

Bandaríkin eru eitt mikilvægasta samstarfsríki okkar Íslendinga. Það gildir um viðskipti, menningu og menntir en ekki síst um öryggismál og víðtækt varnarsamstarf. Það er skiljanlegt að menn hafi áhyggjur af þróun mála þar í landi sé horft til hins tístandi forseta. Á hinn bóginn má ekki gleyma því að margt vanhugsað er látið gott heita á Íslandi. Við líðum býsna margt til að halda friðinn. Það er mikilvægt að hafa í huga að fátt er auðveldara en að setja upp vandlætingarsvip gagnvart öðrum þegar kemur að samskiptum við bandamenn okkar vestanhafs.