Hið margrómaða kaffihús Gilbakki heillar

Gilbakki er einstaklega hlýlegt og fallegt kaffihús á Hellissandi þar sem húsmóðirin Anna Þóra Böðvarsdóttir tekur á móti gestum ásamt starfsstúlkum sínum með hlýleika og ást. Þegar gestirnir koma inn líður þeim eins og þeir séu komnir heim í stofu í heimahúsi en Anna Þóra er eigandinn að Gilbakka og húsmóðirin eins og hún segir sjálf. Húsið stendur eitt og sér, við þjóðveginn, reisulegt og fangar augað frá götunni. Sjöfn Þórðar heimsækir Önnu Þóru og fær að heyra söguna bak við kaffihúsið sem er sannkallað augnakonfekt, hönnuninni og sérstöðu þess í þættinum Matur og Heimili í kvöld.

M&H Gilbakki í allri sinni dýrð.jpeg

Anna Þóra lét fyrst drauminn sinn rætast um að eignast og reka kaffihús á Rifi eftir hugmynd sem upp kom í götugrilli eftir 1-2 rauðvínsglös með stöllu sinni, Siggu Möggu frá Rifi. Þær framkvæmdu hugmyndina og komu upp kaffihúsi, Gamla Rif kaffistofa, sem þær ráku saman til ársins 2016 en þá keypti Anna Þóra reksturinn.

„Eftir námið í byggingafræðinni átti Lúðvík Smárason, eiginmaður minn sér draum um að teikna hús og byggja það. Hann ásamt pabba sínum Smára Lúðvíkssyni byrjaði svo að byggja herlegheitin 2012. Þetta dásemdar hús er byggt í gömlum stíl og reynt að fara sem nákvæmast eftir húsum í norskum stíl. Í upphafi var ekkert ákveðið hver notin ættu að vera fyrir húsið en svo kom hugmyndin um að færa kaffihúsið frá Rifi í þetta fallega hús. Ekki skemmdi fyrir að við fengum lóð á besta stað í bænum. Á lóðinni stóð áður hús sem hét Gilbakki og þótti okkur ekki koma annað til greina en að breyta nafninu á kaffihúsinu úr Gamla Rif kaffistofa í GILBAKKI kaffihús,“segir Anna Þóra og er að vonum hæstánægð með eiginmann sinn að hafa byggt fyrir hana kaffihús.

M&H Gilbakki 5.jpeg

Á kaffihúsinu er allt gert frá grunni, bakað af ást og natni og svo er hægt að fá hina frægu og margrómuðu sjávarréttarsúpu að hætti Önnu Þóru sem þykir ein sú besta og heillar kaffihúsagestina upp úr skónum.

M&H Gilbakki 3.jpeg

Meira um Önnu Þóru og kaffihúsið hennar Gilbakka í þættinum Matur og Heimili með Sjöfn Þórðar í kvöld á Hringbraut klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.