Karólína Alma Jónsdóttir og fjölskylda hennar létu drauma sína rætast og fluttu í sveitina þar sem þau njóta þess að lifa sveitalífinu út í ystu æsar. „Við erum þrjú í heimili ég, maðurinn minn, Jóhann Þórðarson og dóttir okkar, Emilía Agnes, 5 ára. Í mörg ár þvældumst við á milli íbúða á blessaða leigumarkaðnum. Sveitablóðið rann þó ávallt í æðum okkar beggja og það var langþráður draumur okkar að flytja út í sveit og byggja okkar eigið hús,“ segir Karólína sem nýtur þess að komast út í kyrrðina þar sem frelsið er algjört.
Staðráðin að láta drauminn rætast
Þau voru að missa leiguíbúðina enn eitt skiptið þegar þau létu loks slag standa og keyptu sér lóð í Flóanum. „Við vorum þá orðin staðráðin í að láta drauminn okkar rætast. Rimahverfið í Flóanum er nýtt hverfi í uppbyggingu, Hver lóð er rúmur hektari að stærð og já, þessi hektari er út í sveit. Það gefur manni alveg möguleikann á ljúfu litlu sveitalífi.“ Hið ljúfa litla sveitalíf hvernig lýsir það sér? „Núna erum við bara búin að vera á fullu í framkvæmdum hér á lóðinni. Síðasta haust steyptum við plötuna undir íbúðarhúsið og á sama tíma steyptum við líka einingar, sem við ætlum að nota til að útbúa okkur kartöflugeymslu, sökkul og plötu undir hænsnakofann sem við ætluðum að smíða. Núna er hænsakofinn nánast tilbúinn og hann er, að mínu mati, hinn glæsilegasti kofi,“ segir Karólína og er hin stoltasta af verkinu. Hænsakofinn er 12 fermetrar að stærð, með steyptri plötu og gólfhita og því fer vel um kornhænurnar sem þar búa. Bráðarbirgðar klæðning er utan á honum, en planið er svo að klæða hæsnakofann í stíl við íbúðarhúsið og fá heildarmynd á útlit híbýlana. „Núna erum við að einbeita okkur að því að smíða húsgrindina og það er nóg að gera alla dag þar sem við erum bæði líka í vinnu á Selfossi.“ Karólína starfar sem rafeindavirki og Jóhann vinnur við vélaviðgerðir og að sögn Karólínu nýtast hæfileikar þeirra vel saman og þeim finnst þau nánast geta allt saman eða svona næstum því.
Heimasætan Emilía Agnes er hrifin af kornhænunum og nýtur þess að aðstoða við bústörfin í hænsakofanum með móður sinni./Ljósmyndir aðsendar.
Prófar sig áfram í ræktun matjurta
Karólína er líka byrjuð með ræktun og smá búskap ef svo má að orði komast. „Ég er að prófa mig áfram í matjurta ræktun hér heima og hlakka líka til að eignast minn fyrsta garð. Ég er nú þegar byrjuð að sanka að mér trjáplöntum og blómum og þess háttar til að mynda skjól og fegra umhverfið enn frekar.“ Í hverfinu og næsta nágrenni við það er mikið fuglalíf. „Það var til dæmis alveg mögnuð upplifun að sjá þega tvær uglur svífu hljóðlaust rétt yfir hausinn á mér eitt síðsumarskvöldið í fyrra. Svo voru níu ropandi rjúpur spásserandi á hlaðinu hjá okkur einn morguninn þegar við vöknuðum. Í einni lægðinni vex urmull af blágresi. Á góðviðrisdegi, þegar blágresið eru í fullum blóma, getur maður sest þar niður og gleymt sér eitt augnablik, umkringdur blómum og frið og það er nánast jafn endurnærandi eins og góður jógatími.“
Kornhænurnar eru mjög góðar í því að fela sig./Ljósmyndir aðsendar.
Ræktar kornhænur í sveitinni
Þið ræktið og alið kornhænur, hvað eru kornhænur og hver er munurinn á þeim og venjulegum hænum? „Jú, það er rétt. Ég tók að mér nokkrar kornhænur í pössun síðast liðið vor. Fljótlega kveiknaði áhugi hjá mér á kornhænunum og þá var ekki aftur snúið, þær eru svo allt öðruvísi en þessar hefðbundnu hænur. Þetta eru litlir fuglar, svo litlir að þeir komast fyrir í lófa manns. Hanarnir gala alveg en þeir segja þá svona lágstemmt „gurrgúrr“ en ekki gaggalagú eins og venjan hjá flestum hönum. Kornhænur geta flogið en þó ekki mjög hátt upp en komast þó alveg nokkur hundruð metra í hverju flugi. Það er í eðli þeirra að fela sig og þær eru mjög góðar í því. Ég týndi einu sinni hænu í grasinu rétt við tærnar á mér og þurfti að fá hundinn okkar til að þefa hana uppi því ég gat ómögulega fundið hana sjálf. Kornhænu ungar eru fljótir að stækka, það líða ekki nema um það bil sjö vikur frá því að þeir klekjast úr eggi og þar til þeir verða kynþroska. En ævin þeirra er líka tiltölulega stutt en það er talað um að meðalaldur kornhæna sé í kringum 3 til 4 ár. “
Mikill stærðarmunur eru á venjulegu hænueggi og kornhænueggi. Kornhænueggin er mjög falleg og einstaklega bragðgóð og vinsæl meðal matgæðinga.
Gómsætt kornhænuegg sem gleðja bragðlaukana og augað
Kornhænuegg, segðu okkur aðeins frá þeim og hvernig er best að matreiða þau.
„Þær gefa gómsæt lítil egg sem ekki bara gleðja bragðlaukana heldur líka augað. Eggin þeirra eru vegna stærðarinnar mjög fljót elduð, þau eru mjúk og mild á bragðið og henta vel sem „skyndibiti“ ein og sér, útá salat, eða inn í buff sem dæmi. Þessir fuglar og þessi egg eru betur þekkt erlendis heldur en hérlendis og ég sjálf þekkti ég ekki til þeirra fyrr en skömmu áður en ég eignaðist þær sjálf.“ Eru þið að bjóða uppá dýraafurðir beint frá býli? „Núna á ég ágætis stofn af fuglum, rúmlega 20 hænur eins og er, og þær verpa meira en við ráðum við að borða sjálf þannig að ég brá á það ráð að prófa að bjóða fólki að fá egg hjá mér og þau eru að fá frábærar viðtökur enda sælkeramatur. Fjölmargir sem eru forvitnir og langar að prófa nýjungar og jafnframt fólk með eggjaofnæmi hafa haft samband við mig til að prófa þau. Svo virðist sem fólk með eggjaofnæmi þoli í mörgum tilfellum kornhænueggin. Svo eru líka aðrir sem þekkja til kornhænueggjana frá heimalandi sínu og eru ánægðir að geta nú notið þeirra líka hér á Íslandi.“