Bókin Vörn gegn veiru er að mörgu leyti ruglingsleg. Þar er safnað saman ýmsu efni sem komið hefur fram í fjölmiðlum, stórum og smáum, allt frá því að þessi faraldur tók að trufla líf okkar hér á landi. Í þeirri samantekt er allt efnið þekkt. Höfundurinn hafði boðað að greint yrði frá ýmsu sem gerst hefði að tjaldabaki og væri þar af leiðandi afar forvitnilegt. Nokkrar tilraunir eru gerðar til að fjalla um fundi þar sem reynt var að jafna ágreining. Flest þeirra ágreiningsefna hafa verið í umræðunni, jafnvel í fjölmiðlum, og þar af leiðandi þekkt í megin atriðum.
Þar sem bókinni er ætlað að rekja framvindu mála í baráttu þjóðarinnar við veiruvandann, trufla ritgerðir nokkurra manna þráðinn. Þeim er dreift hingað og þangað um bókina án nokkurs sérstaks samhengis við meginefnið. Birtast bara eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Umræddar geinar eru eftir Egil Helgason og fjóra formenn stjórnarandstöðuflokka, þau Ingu Sæland, Loga Einarsson, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Um er að ræða ágætlega skrifaðar greinar en vandinn er bara sá að þær eiga ekki heima í bók af þessu tagi.
Öðru máli gegnir um formálsorð Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra. Hann mun eiga hugmyndina að bókinni og stungið henni að höfundinum Birni Inga Hrafnssyni. Það er því vel til fundið að fela Össuri að skrifa inngang enda er hann einkar ritfær og einstakur stríðnispúki. Þeir eiginleikar koma glöggt fram í inngangi Össurar þar sem hann notar tækifærið og dregur ýmsa sundur og saman í hárbeittu háði sem einkum lýsir sér í oflofi og skjalli sem er vel til þess fallið að grínast með fólk á vingjarnlegan hátt.
Oflof Össurar kemur glöggt í ljós þegar hann skjallar forsætisráðherrann og talar um að hún hafi beitt „stjórnvisku“ þegar hún hljóp í skjól á bak við embættismennina sem fengu nánast alræðisvald í hendur þegar ríkisstjórnin fór á taugum, einkum þó Katrín sjálf. Þá þarf að rýna í skilaboð Össurar þegar hann fjallar um Björn Inga sjálfan sem á loks að hafa unnið traust og aðdáun þjóðarinnar. Beittust og fyndnust er þó gagnrýnin á Kára Stefánsson enda er þar af nógu að taka.
Talandi um Kára. Bókin er nær samfelldur lofsöngur bókarhöfundar um hann. Ljóst er að hlutverk Kára hefur verið mikið í allri þessari framvindu. Mörgum hefur þótt nóg um þó ekki sé gert lítið úr merku starfi Íslenskrar erfðagreiningar, sem nú er í eigu útlendra fjárfesta. Kári virðist hafa leikið svo stórt hlutverk varðandi mikilvægar ákvarðanir að hann hefur virst vera æðri ríkisstjórninni sjálfri. Fullyrt er að hann hafi nánast haft í hótunum við suma ráðherrana nú um miðjan ágúst þegar hann lagði ofuráherslu á lokun landsins með fimm til sex daga sóttkví sem hefur stöðvað öll ferðalög til og frá landinu. Ástæða er til að spyrja: Var Kári Stefánsson forstjóri kjörinn til að stjórna landinu?
Björn Ingi Hrafnsson sat fyrir svörum í Kastljósi fyrir viku. Þar sló hann því fram að Kári eða Íslensk erfðagreining, sem hann vinnur hjá sem forstjóri, ætli að gefa íslensku þjóðinni Farsóttarstofnun Íslands. Milljarðagjöf. Þetta fullyrti Björn án fyrirvara. Mikið „skúbb“ eins og það er kallað hjá fjölmiðlum!
Kári bar þetta strax til baka í þeim fjölmiðlum sem báru þetta undir hann. Forstjórinn vísaði þessu á bug og talaði um stráksskap sinn. Þar með féll „skúbbið“ dautt.
Menn hafa velt því fyrir sér hver eða hverjir hafi verið fjárhagslegir bakhjarlar þessarar bókaútgáfu en þess er ekki getið sem er miður. Þess vegna eru sögusagnir á kreiki. Vonandi verður það upplýst sem fyrst.