Herferð sægreifa gegn veiðigjöldum hafin með harmagráti

Ljóst er að núverandi ríkisstjórn ætlar að ganga erinda sægreifa og bænda gegn hagsmunum þorra landsmanna. Það á að lækka veiðigjöld, greiðsluna fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, og það á að moka enn meiri styrkjum í landbúnað sem bændur virðast ekki kunna að reka eins og eðlilegan atvinnurekstur.

Svo er að heyra að landbúnaður gangi illa og best sé að senda reikninginn vegna tapsins beint til ríkissjóðs eins og venjulega. Það gildir ekki um sjávarútveg. Rekstur hans gengur vel og arðsemi hans er tvöfalt meiri en í atvinnulífinu. Arðgreiðslur í sjávarútvegi á Íslandi hafa numið 22% að meðaltali af hagnaði árin 2010 til 2016.

Forystumenn sjávarútvegs kvarta stöðugt undan því að greinin þurfi að borga veiðigjöld í ríkissjóð en veiðigjöldin eru ekki annað en leiga fyrir afnot af sjávarauðlindinni sem er sameign þjóðarinnar. Veiðigjödlin eru þannig sambærileg við húsaleigu sem fyrirtæki greiða fyrir afnot af húsnæði sem er í eigu annarra. Veiðigjöldin eru ekki skattur heldur greiðsla fyrir afnot, rétt eins og húsaleiga er ekki skattur heldur greiðsla fyrir afnot af húsnæði. Veiðigjöld og húsaleiga eru frádráttarbærir kostnaðarliðir í rekstri fyrirtækja. Það er blekking að tala um veiðigjöld sem skatt.

Álagning veiðigjalda er háð pólitískri ákvörðun. Heildarveiðigjöld námu 12,8 milljörðum króna á ári við lok kjörtímabilsins 2009 til 2013. Hægri stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hófst strax handa um að lækka veiðigjöldin og rýra þannig tekjur ríkissjóðs og kom þeim niður í 6,9 milljarða króna árið 2016 og enn hafa veiðigjöldin lækkað og nú niður í 4,6 milljarða, sem dugar varla fyrir rekstri Landhelgisgæslunnar og Hafrannsóknarstofnunar. Vegna uppgjörsaðferðar þessara gjalda munu þau svo hækka samkvæmt núgildandi fjárlögum í 11 milljarða króna.

Það er þá sem sægreifar fara af stað með skipulegum hætti til að reyna að grenja út lækkun á þessari leigu til ríkissjóðs fyrir afnot af allri sjávarauðlindinni. Morgunblaðið er notað grímulaust í þessum áróðri enda er blaðið að mestu í eigu sægreifa. Þann 3. janúar sl. gat t.d. að líta fyrirsögn í blaðinu sem hljóðaði svona: “Veiðigjaldið nálægt 60% af hagnaðinum”. Þetta er sett fram með þessum hætti til að freista þess að blekkja á sama tíma og fram hafa komið upplýsingar um að hagnaður sjávarútvegs á ári hafi verið 66 milljarðar króna og þá er búið að gjaldfæra veiðigjald þess árs. Einnig hefiur blaðið leitt fram útgerðarmenn sem segja að þeirra fyrirtækjum “stórblæði núna um hver einustu mánaðarmót”. Æ, æ. Ósköp er að heyra!

Mikilvægt er að Alþingismenn láti ekki blekkjast af herferð sægreifanna. Markmið þeirra er greinilega að láta þessa leiðitömu ríkisstjórn afnema veiðigjöldin með öllu þannig að þeir borgi helst enga leigu fyrir afnot af eign þjóðarinnar, sjávarauðlindinni.

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismaður, segir nýlega í blaðagrein um áróður sjávarútvegsins og áform þeirra varðandi skiptingu arðs af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar: “Talsmenn sjávarútvegsins vilja að þessir fáu eigi sem mest og að hinir mörgu, almenningur, fái sem minnst. Það er kjarni málsins.”

Til að sýna fram á blekkingar talsmanna sjávarútvegsins svart á hvítu, eru hér sýndar tölur um raunverulegan hagnað 10 af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins en þær eru fengnar úr ritinu Frjáls verslun 300 stærstu sem kom út fyrir nokkrum vikum. Sýndar eru fjárhæðir HAGNAÐAR EFTIR SKATTA ÁRIÐ 2016.  Hagnaður þessara 10 fyrirtækja nam nærri 39 milljörðum króna eftir skatta og öll gjöld:

 

  1. Samherji:   Hagnaður  14,310 milljónir króna.
  2. HB Grandi: Hagnaður  3,494 milljónir króna.
  3. Síldarvinnslan:  Hagnaður  4,993 milljónir króna.
  4. Ísfélag Vestmannaeyja:  Hagnaður  2,788 milljónir króna.
  5. Vinnslustöðin:  Hagnaður  1,649 milljónir króna.
  6. Loðnuvinnslan:  Hagnaður  1,632 milljónir króna.
  7. Skinney-Þinganes:  Hagnaður  2,542 milljónir króna.
  8. Rammi:  Hagnaður  1,189 milljónir króna.
  9. Vísir:  Hagnaður  4,310 milljónir króna.
  10. Eskja:  Hagnaður  1,843 milljónir króna.

Samtal hagnaður þessara 10 sjávarútvegsfyrirtækja:  38,750 milljónir króna. Næstum því 39 milljarðar króna.

Að sönnu er gleðilegt þegar vel gengur og mikill hagnaður næst. En þá á ekki við að láta talsmenn atvinnugreinarinnar væla og skæla í fjölmiðlum eins og að allt sé í kalda koli.

Það er ekki trúverðugt. Allir hljóta að sjá í gegnum það. Einnig þingmenn.

Rtá.