Hera Björk Þórhallsdóttir, söngkona og fasteignasali, opnar sig um nauðgun sem hún varð fyrir á barnsaldri í viðtali í nýjasta tölublaði Vikunnar. Þar lýsir hún því hvernig hún rakst á nauðgarann mörgum árum síðar og sló hann utan undir.
Í viðtalinu ræðir hún einnig um magarermisaðgerð sem hún fór í fyrir nokkrum árum. „Þetta snýst ekki um kílóin sem eru farin,“ segir Hera í viðtalinu. „Í grunninn er ég sjálfsörugg og mér hefur alltaf þótt ég sæt og sexí. Ég elskaði Heruna sem ég sá í speglinum. Þetta snerist aldrei um útlitið. Ég hef aldrei verið með útlitsþráhyggju. Ég var bara með innlitsþráhyggju. Ef manni líður vel í eigin skinni skiptir í raun engu máli í hvernig formi maður er. Mér var bara hætt að líða vel í eigin skinni og ástæðan fyrir því var ekki sú að ég væri með of stórt nef eða of feit læri. Mér leið ekki lengur vel inni í mér.“