Helstu vígi sjálfstæðisflokksins í fallhættu

Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum er klofinn í herðar niður, þökk sé valdhrokanum í Eliða Vignissyni fráfarandi bæjarstjóra. Flokkurinn fékk yfir 70% greiddra atkvæða í kosningunum fyrir fjórum árum og 5 menn kjörna í bæjarstjórn af 7. Vaxandi óánægju gætir í Vestmannaeyjum með störf Elliða og ekki síst hve einráður og frekur hann er orðinn. Valdið hefur spillt honum og hann þykir hafa sýnt skýra eiginleika “flokkseiganda” sem oft markar upphafið að engdalokum þeirra sem fást við stjórnmál.

 

Fréttablaðið hefur birt stóra skoðanakönnun sem sýnir að meirihluti flokksins í Eyjum er fallinn. Fylgið er komið niður í 41% og þrjá bæjarfulltrúa en nýtt framboð, Fyrir Heimaey, er með 32% og tvo menn. Eyjalistinn heldur sínum tveimur mönnum og er með 25%. Íris Róbertsdóttir er greinilega stjarna þessarar kosningabaráttu en hún hefur m.a. gegnt formennsku ÍBV og ýmsum öðrum áhrifastöðum.

 

Til marks um vandræðagang Sjálfstæðisflokksins í Eyjum hefur Páll Magnússon þingmaður ekki treyst sér til að lýsa yfir stuðningi við D-listann. Það er fáheyrt að fyrsti þingmaður flokksins í kjördæmi styðji ekki flokkinn í sveitarstjórnum. Vestmannaeyjar hafa verið eitt sterkasta vígi fokksins í áratugi og því er þessi staða mikið áfall.

 

Sama gæti gerst á Seltjarnarnesi sem er annað vígi flokksins sem hingað til hefur verið talið óvinnandi. Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri og leiðtogi listans, mætir vaxandi gangrýni og óvinsældum á Nesinu. Þannig kom hún mjög illa út úr prófkjöri flokksins vegna kosninganna í vor. Hún var eini í framboði til fyrsta sætis en hlaut samt einungis 60% atkvæða en 40% dreifðust á aðra frambjóðanda sem buðu sig fram í önnur sæti en hið fyrsta. Ástæðan fyrir þessu er sú að Ásgerður nýtur ekki lengur vinsælda meðal flokksmanna eða bæjarbúa almennt. Hún hefur þótt einráð og hrokafull og meðal annars verið dæmd fyrir einelti gagnvart stjórnanda sem var hrakinn frá bæjarskrifstofunum. Svo virðist sem mjög takmörkuð stemning sé nú í kringum bæjarstjórann einráða og Sjálfstæðisflokkinn á Nesinu. Það vantar alla gleði.

 

Fram hefur komið að hópur frjálsyggjumanna á Seltjarnarnesi íhugar nú að bjóða fram í komandi kosningum undir forystu Skafta Harðarsonar sem er þekktur fyrir að vera einstrengingslegur harðlínumaður lengst til hægri. Vitað er að hann studdi Magnús Örn Guðmundsson í prófkjöri flokksins en Magnús vann annað sætið í prófkjörinu. Hann sat áður í fjórða sæti. Þessi árangur harðlínumanna virðist samt ekki duga Skafta og félögum sem undirbúa klofningsframboð á Nesinu.

 

Viðreisn/Neslistinn birta framboðslista sinn á næstunni. Talið er að talsverður byr sé með þeim lista og því samstarfi. Samfylkingin hefur verið stöðug á Seltjarnarnesi og er nú með tvo bæjarfulltrúa sem flokkurinn ætti að halda. Sjálfstæðisflokkurinn fékk rétt um 50% í síðustu kosningum og þarf ekki að tapa miklu fylgi til að missa völdin á Nesinu og þá í fyrsta sinn í sögunni. Það yrði saga til næsta bæjar.

 

Í Garðabæ hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið öruggum völdum í langan tíma. Þar er svipað gerast og í Eyjum og á Seltjarnarnesi. Kjósendur eru orðnir þreyttir á valdhroka þeirra sem stjórna og margir vilja sjá breytingar. Nú hafa margir flokkar tekið sig saman um framboð til að tryggja betri nýtingu atkvæða. Hvort það dugar til að fella meirihlutann skal ósagt látið að sinni.

 

Þrjú sterkustu vígi flokksins mæta mótvindi sem stendur, hver svo sem niðurstaðan verður.

 

Í öllum tilvikum er valdhroka um að kenna. Dramb er falli næst; jafnvel í Eyjum, á Seltjarnarnesi og í Garðabæ.

 

Rtá.