Tónlistarmaðurinn Helgi Björns snýr aftur í Sjónvarp Símans annað kvöld, en eins og landsmenn vita slógu hann og aðrir góðir gestir rækilega í gegn í vor og í sumar með kvöldvökum sínum á laugardagskvöldum.
Helgi snýr aftur annað kvöld en undir aðeins öðrum formerkjum og hefur þátturinn fengið nafnið „Það er komin Helgi“.
„Þátturinn sem hefst á morgun verður sambærilegur fyrri útsendingum Helga hjá Sjónvarpi Símans en þó með ögn breyttu sniði. Nú verða þættirnir ekki heima hjá Helga heldur sendir út frá Hlégarði í Mosfellsbæ. Helgi tekur sem fyrr á mót einvala liði gesta, hvort sem þeir koma úr röðum tónlistarmanna og leikara en gestalisti Helga verður hulinn miklum leyndarhjúp og kemur ekki í ljós fyrr en í útsendingunni hverjir eru gestir kvöldsins hverju sinni,“ segir í tilkynningu sem send var fjölmiðlum nú í morgunsárið. Verður meira rými nú fyrir kerskni og gamanmál.
„Okkur langaði aðeins að víkka rými samtalsins og gefur okkur færi á smá sprelli en auðvitað er tónlistin, sem fyrr, allt um liggjandi í þessu hjá okkur. Sú formúla fór vel í landsmenn og engin ástæða að breyta því,“ segir Helgi sem nú getur bætt titlinum þáttarstjórnandi við röð titla á borð við söngvari, leikari og framleiðandi svo eitthvað sé upp talið.
Þættirnir verða sex núna í haust og hefja göngu sína eins og fram kom hér að ofan á laugardagskvöld klukkan 20:00.