Samfylkingin verður reiðubúin í kosningabaráttu hvort sem ríkisstjórnin hrökklast frá fljótlega eða eftir langvinnt dauðastríð sem lýkur í síðasta lagi eftir tvö ár. Áþreifanleg tíðindi bárust í dag þegar Helga Vala Helgadóttir, þingmaður flokksins í Reykjavík, lýsti því yfir í blaðaviðtali að hún hverfi nú frá þingmennsku og taki til starfa að nýju sem sjálfstæður lögmaður.
Hávær orðrómur hefur verið um að Kristrún hafi ákveðið að losa sig við þrjá af núverandi sex þingmönnum flokksins. Helga Vala er ein þeirra og nú fer hún frá borði. Þá mun Oddný Harðardóttir, þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi og fyrrverandi ráðherra, hætta fyrir næstu kosningar. Um það hefur ekki verið ágreiningur, raunar bjuggust margir við að hún léti staðar numið fyrir síðustu kosningar. Oddný er 66 ára, sem er engan veginn aldur sem hamlar fólki þingsetu. Hún hefur nú átt sæti á Alþingi í 14 ár og reynst flokki sinum vel.
Kristrún og helstu áhrifamenn flokksins hafa ákveðið að Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og fyrrverandi þingmaður og ráðherra, mun leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvestur kjördæmi, Kraganum. Guðmundur Árni er „genginn aftur“ í stjórnmálum eftir farsælan feril sem sendiherra eftir þingsetu og ráðherradóm. Hann er hokinn af reynslu, vel á sig kominn, hress og unglegur þótt kominn sé vel á sjötugsaldurinn. Hann er einnig varaformaður flokksins sem hefur mælst afar vel fyrir sem gott mótvægi við að núverandi formaður er ungur að aldri og nýr í stjórnmálum, sem virðist þó ekki hamla.
Leiði Guðmundur Árni listann í Kraganum þarf Þórunn Sveinbjarnardóttir að víkja úr efsta sætinu. Mögulega tekur hún sæti neðar á listanum en einnig er kann að vera að hún kjósi að hverfa til annarra starfa, enda með víðtæka reynslu. Fái Samfylkingin álíka mikið fylgi og skoðanakannanir hafa sýnt síðustu 10 mánuði er viðbúið að flokkurinn fái alla vega fjóra þingmenn í Kraganum og jafnvel fimm. Guðmundur Árni og Þórunn geta myndað gott teymi í forystu Samfylkingarinnar í Kraganum.
Fyrir liggur að Kristrún Frostadóttir treystir Loga Einarssyni og Jóhanni Páli Jóhannssyni fullkomlega. Þeim mun báðum ætlað ráðherrasæti í ríkisstjórn Kristrúnar ef allt gengur eftir eins og virðist blasa við núna.
Samfylkingin þarf að vanda sig við að finna fjölda nýrra þingmannsefna. Samkvæmt heimildum er það verk í fullum gangi og vel á veg komið. Flokkurinn vill ekki missa undirbúning kosninga út í neina vitleysu og mun gera sitt til þess að allt verði tilbúið þegar þar að kemur – hvort sem er á komandi vetri eða eitthvað síðar. Ríkisstjórnin er dauð og allir verða að vera viðbúnir kosningum með skömmum eða lengri fyrirvara.
Vitað er um nokkra þekkta og velmetna borgara sem íhuga nú framboð fyrir Samfylkinguna. Hér verður beðið með að nefna nöfn.
Þó skal nefna þær hugmyndir að flokkurinn muni gera kröfu um að heilbrigðisráðherrann komi úr röðum Samfylkingarinnar. Verði það ekki Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og læknir, hefur nafn núverandi landlæknis verið nefnt. Alma Möller er systir Kristjáns Möllers, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, en þau eru mjög nánir félagar og pólitískt standa þau þétt saman. Alma er þjóðhetja eftir tveggja ára forystu í baráttu þjóðarinnar við veiruvandann.
Samfylkingin gæti teflt fram heilbrigðisráðherra með læknismenntun í fyrsta skipti í Íslandssögunni.
- Ólafur Arnarson