Helga Möller var efins um lag Daða

Tón­listar­konan Helga Möller segist hafa verið efins um að það hefði verið rétt á­kvörðun að senda Daða og Gagna­magnið aftur til leiks í Euro­vision eins og raunin varð.

Daði Freyr var full­trúi okkar í keppninni í fyrra en eins og kunnugt er var keppninni síðan af­lýst vegna CO­VID-19-far­aldursins. Lag Daða, Think About Things, þótti sigur­strang­legast hjá veð­bönkum. RÚV tók þá á­kvörðun að senda Daða Frey aftur og sleppa for­keppninni í þetta sinn.

Lag Daða, 10 Years, hefur vaxið síðustu vikur og er það sem stendur í 5. sæti hjá veð­bönkum.

Rætt var um lagið í þættinum Alla leið á RÚV í gær­kvöldi þar sem Regína Ósk, Einar Bárðar­son og Helga Möller sögðu sína skoðun. Öll eru þau á­nægð með lagið og telja að það eigi eftir að gera góða hluti. Helga Möller viður­kenndi hins vegar að hafa verið efins um fram­lag Ís­lands, eins og lýst er í frétt um þáttinn á vef RÚV.

„Ég elska þetta lag en samt sem áður þurfti ég að hlusta á það tvisvar til þess að komast á þá skoðun að það hefði verið rétt á­kvörðun að senda hann aftur. Það sem hræddi mig var að þetta var svo ein­stakt í fyrra að þetta myndi kannski ekki virka núna. En sá efi er al­gjör­lega farinn. Ég er viss um að þetta muni ganga upp hjá þeim.“

Einar Bárðar­son sagði að þetta væri eina at­riðið í keppninni sem er frum­legt með öllu og ein­stakt. Regína ósk sagðist telja að Daði og Gagna­magnið ættu eftir að bræða Evrópu með ein­lægni sinni og auð­mýkt. Ekki megi gleyma því að lagið er líka gott.