Tónlistarkonan Helga Möller segist hafa verið efins um að það hefði verið rétt ákvörðun að senda Daða og Gagnamagnið aftur til leiks í Eurovision eins og raunin varð.
Daði Freyr var fulltrúi okkar í keppninni í fyrra en eins og kunnugt er var keppninni síðan aflýst vegna COVID-19-faraldursins. Lag Daða, Think About Things, þótti sigurstranglegast hjá veðbönkum. RÚV tók þá ákvörðun að senda Daða Frey aftur og sleppa forkeppninni í þetta sinn.
Lag Daða, 10 Years, hefur vaxið síðustu vikur og er það sem stendur í 5. sæti hjá veðbönkum.
Rætt var um lagið í þættinum Alla leið á RÚV í gærkvöldi þar sem Regína Ósk, Einar Bárðarson og Helga Möller sögðu sína skoðun. Öll eru þau ánægð með lagið og telja að það eigi eftir að gera góða hluti. Helga Möller viðurkenndi hins vegar að hafa verið efins um framlag Íslands, eins og lýst er í frétt um þáttinn á vef RÚV.
„Ég elska þetta lag en samt sem áður þurfti ég að hlusta á það tvisvar til þess að komast á þá skoðun að það hefði verið rétt ákvörðun að senda hann aftur. Það sem hræddi mig var að þetta var svo einstakt í fyrra að þetta myndi kannski ekki virka núna. En sá efi er algjörlega farinn. Ég er viss um að þetta muni ganga upp hjá þeim.“
Einar Bárðarson sagði að þetta væri eina atriðið í keppninni sem er frumlegt með öllu og einstakt. Regína ósk sagðist telja að Daði og Gagnamagnið ættu eftir að bræða Evrópu með einlægni sinni og auðmýkt. Ekki megi gleyma því að lagið er líka gott.