Hin ástsæla söngkona Helena Eyjólfsdóttir er meðal gesta Sigurðar K. Kolbeinssonar þáttastjórnanda í þættinum Lífið er lag sem verður á dagskrá Hringbrautar í kvöld kl. 20.30.
Helena hóf ung söngferil sinn og hefur frá mörgu að segja í gegnum glæsilegan söngferil, lengst af með hljómsveit Ingimars Eydal sem var ein vinsælasta danshljómsveit Íslands fyrr og síðar.
Á 7. áratugnum voru reglur skattstjóra m.a. þær að skemmtikraftar þurftu aðeins að gefa upp helming tekna sinna af tónleikahaldi og það kom sér afar vel að sögn Helenu. Hún er enn að, lífsglöð og geislandi og lætur aldurinn ekki draga úr löngun til betra lífs.
Meðal annars efnis í þættinum er heimsókn í rafhjólaklúbb í Hveragerði, umfjöllun um álag langvarandi veikinda einstaklinga á maka sína og þá verður einnig rætt við Ingibjörgu Ólöfu Isaksen sem var nýlega skipuð formaður nefndar félagsmálaráðherra um bætt úrræði í málefnum eldri borgara til frambúðar.