Við fengum innanhússarkitektinn Katrínu Ísfeld sem er með sitt eigið stúdíó, Katrín Ísfeld Hönnunar stúdíó við Bríetartún, til að fara yfir heitustu eldhústrendin árið 2021. Miðað við það sem sérfræðingarnir og innanhússarkitektaheimurinn segja þá fer hlýleikinn, fjölbreytni í lita- og efnisvali að láta til sín taka á nýju ári mörgum til mikillar gleði.
„Árið 2021 verður afar skemmtilegt og spennandi og þá sérstaklega fyrir innanhússarkitekta og fólk eins og mig sem elskar fjölbreytni í litum og áferðum. Nú verður mjög áberandi að eldhúsinnréttingarnar verða hafðar í tveimur litum og áferðum, hreinn litur til dæmis með sprautulökkun, filma og viður verða mikið notuð með viðarútliti, þar sem hnota, reykt eik og einnig dökkur viður með fallegum viðaræðum fá aldeilis að njóta sín. Borðplöturnar verða fjölbreyttari hvað varðar mynstur og áferðir og munu fallegir grá/brúnir tónar, jarðlitir verða vinsælir þar. Meira verður um að setja fallega viðarplötu, aukaplötu ofaná steinplötuna fyrir morgunverðarborðið. Litirnir sem verða mikið notaðir eru jarðlitir frá mildum tónum í dýpri dekkri jarðliti. Við Íslendingar sem erum umvafin fallegri nátturu í fallegustu djúpu jarðlitum ættum ekki að eiga í vandræðum með að nota þá og koma okkur út úr gráu.“
Samspil náttúru og efniviðar þar sem fleiri litir og tónar koma saman ásamt áferð.
Viðarplata aukaplata ofan á steinplötu þar sem leikið sér er með form og efnivið.
Hlýir og dökkir tónar koma sterkt inn á ný.
Höldum áfram að flokka í sniðuga dalla
Eru einhverjar nýjungar sem von er á miðað við breytan lífsstíl fólks samanber meiri vitundarvakningu í umhverfismálum, flokkun og annað sem tengist að nýta hlutina betur og koma í veg fyrir sóun „Hef ekki tekið sérstaklega eftir nýjungum þar heldur höldum við áfram að flokka í sniðuga dalla sem er komið vel fyrir í innréttingunum, notum meira kryddjurtir sem við ræktum sjálf í fallegum pottum sem fá að njóta sín í eldhúsinu og skipuleggjum ísskápinn með góðum ráðum með innkaupin og nýtni matarins betur.“
Flæði í eldhúsrýminu er aðalatriðið
Þegar kemur að fagurfræðinni og notagildi í hönnun eldhúsrýma hvað finnst Katrínu skipta mestu máli að huga að flæðinu „Flæðið í eldhúsrýminu er aðalatriðið ekki bara vinnuaðstaðan inní því heldur einnig hvernig við til að mynda komum að rýminu og förum út úr því , hvernig við tengjum það við matarborðið og sófasvæðið þar sem við viljum hafa þessa þætti ekki of langt frá.“
Hjartað heimilisins slær í eldhúsinu
Það er hefur ekki farið framhjá neinum að eldhúsið er yfirleitt sá staður heimilisins þar hjartað slær. Katrín leggur því mikla áherslu á gera eldhúsið að griðastað heimilisins. „Njótið þess að gera þetta mikilvæga hjarta heimilisins fallegt og notalegt fyrir alla fjölskylduna. Þetta er mest notaða rýmið og þá á ég við heildar rýmið, eldhúsið með borðaðstöðunni og sófasvæðinu. Verið óhrædd við að spyrja ykkur hvað ykkur finnst fallegt og notalegt í rýminu. Hvað gleður ykkur fagurfræðilega og hvað virkar fyrir ykkar fjölskyldu.“
Plöntur og kryddjurtir gefa rýminu líf.
Stílhreint og klassískt er ávallt fallegt. Myndir Katrín Ísfeld.