Við fengum innanhússarkitektinn Katrínu Ísfeld sem er með sitt eigið stúdíó, Katrín Ísfeld Hönnunar stúdíó við Bríetartún, til að fara yfir heitustu eldhústrendin árið 2020. Framkvæmdagleðin var í fyrirrúmi á árinu sem leið og margir létu verða af því að fá sér draumaeldhúsið og þá voru þetta helstu trendin.
Svart bæsuð eik og marmaraplötur
„Það var áberandi hér á landi hversu vinsælt það var að vera með svart bæsaða eik í innréttingunni og hvíta marmaraplötu með calacatta áferð eða Carrara marmara, sem er með meiri áberandi æðum. Þetta var undantekningalaust mesta trendið. Einnig sáust fyrr á árinu 2020 gráar innréttingar, bæði ljós gráar og dekkri gráar og allir veggir voru í gráum tónum. Katrín tók einnig eftir hversu margir eru farnir að glæða eldhúsin lífi með plöntum. „Gaman fannst mér að sjá hversu plöntur bæði matjurtir og minni plöntur fengu að vera með inní eldhúsum landsmanna og meira var um að sjá hillur í stað efri skápa með fallegum hlutum sem gátu verið bollar og skálar í fallegum litum og með mynstri, matreiðslubækurnar fengu að njóta sín ásamt plöntunum við hliðina á. Þetta þótti mér skemmtilegt og yljaði mér þegar ég sá hversu landinn var duglegur að skreyta í kringum sig. Síðar á árinu fór að sjást meira af reyktri eik og hnota fór að sjást aftur, sem sagt meira af brúnum tónum fóru að sjást sem var mjög ánægjulegt, einnig fóru steinplöturnar aðeins að færa sig yfir í brúnleitari tóna svona alveg í lok ársins.“
Marmarinn hefur verið mesta trendið á liðnu ári. Myndir Katrín Ísfeld.
Hillur stað efri skápa hafa verið vinsælar og grænar plöntur hafa rudd sér til rúms í eldhúsum landsmanna.
Þetta er eldhús í gömlu húsi í Hafnarfirði þar sem fallegir jarðlitir og hlutir fá að njóta sín.
Katrín Ísfeld innanhússarkitekt er með sitt eigið hönnunarstúdíó við Bríetún í Reykjavík.