Jóhanna og Guðrún Kristjánsdætur stofnendur og eigendur Systrasamlagsins verða hjá Sjöfn Þórðar í þættinum Matur & Heimili á mánudagskvöld:
Í hjarta miðborgarinnar í gullfallegu húsi, Óðinsgötu 1, leynist yndislegt kaffihús og smávöruverslun sem nærir bæði hjarta og sál. Þar er til húsa heilsuhofið Systrasamlagið þar sem hægt er að fá lífrænt og hollt góðgæti eins og gæða kaffi, te, heilsudrykki, samlokur og kökur svo fátt sé nefnt. Þarna er matur og munúð í forgrunni og mörg vel geymd leyndarmál þegar kemur að því að fá sér heita og ljúffenga drykki sem eru góðir fyrir sálina.
Sjöfn Þórðar heimsækir systurnar, Jóhönnu og Guðrúnu Kristjánsdætur sem eru stofnendur og eigendur Systrasamlagsins og frumkvöðlar á kaffihúsi af þessari gerð. Sjöfn fær þær systur til að segja frá tilurð heilsuhofsins þar sem áhersla er lögð á að vera með lífrænt og hágæða hráefni í öllu því sem framreitt er.
„Þegar við systurnar settum Systrasamlagið á laggirnir var það byggt á þeirri hugsjón að víkka út hugmyndina um heilsubúð og færa nær almenningi. Hafa andann ávallt með í efninu,“ segja þær systur Jóhanna og Guðrún. Þær tóku strax þá stefnu að bjóða ekki eingöngu upp á holla og góða fæðu, lífrænt kaffi og drykki heldur líka sölu á fallegum, lífrænum yoga fatnaði og vörum og kakóinu sem enginn stenst. „Við leggjum áherslu á eiturefnalausan lífstíl og það á við allar okkar vörur,“ segja þær systur og teljast þær til frumkvöðla á þessu sviði.
Þær systur ljóstra leyndarmálinu bak við lífrænu og hollu drykkina sem þær eru að bjóða upp á og gefa Sjöfn að smakka og njóta upplifunnar alla leið. Þar sem ólík brögð eru leidd saman með himneskri útkomu. Einnig töfrar þær fram ljúfustu og hollustu súkkulaði köku sem Sjöfn hefur bragðað. Eingöngu úr lífrænum hráefnum án sykurs og glútens.
Missið ekki af heimsókn Sjafnar í Systrasamlagið og upplifun hennar á himneskum drykkjum og draumi súkkulaðiaðdáandans sem nærir bæði sál og hjarta.
Þátturinn Matur & Heimili er á dagskrá öll mánudagskvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.