Mathöll Höfða sem staðsett er við Bíldshöfða 9, hefur tekið stakkaskiptum en Sólveig Andersen eigandi Mathallarinnar og hönnuður stóð í stórræðum í sumar og stækkaði Mathöllina umtalsvert með góðri útkomu. Veitingastöðunum hefur fjölgað úr átta í tíu sem er kærkomið og það má með sanni segja að hægt sé að fara í heimreisusmakk og matarflóran blómstrar í höllinni. Sjöfn Þórðar heimsækir Sólveigu í Mathöllina og fær innsýn í stækkunina og breytinguna sem henni fylgdi.
„Við ákváðum að létta yfirbragðið og stækkuðum alveg út í hinn endann á húsnæðinu þannig að bæði birtan og lýsingin er fallegri,“segir Sólveig og bætir því jafnframt við að hún hafi ákveðið að leyfa ákveðnum einkennum húsnæðisins að halda sér en í húsinu var meðal annars Bílanaust og Hampiðjan og má sjá sérkenni þess.
Matarflóran hin fjölbreytasta og réttir frá öllum heimshornum
„Staðirnir sem hafa bæst við annars vegar er Pastagerðin, en hún hefur slegið í gegn með pastanu sínu sem er ferskt pasta framleitt af starfsfólkinu sjálfu og geggjaðar sósur. Hins vegar er það veitingastaðurinn Dragon Dim Sum, en eigendurnir að þeim stað eru líka með Matbar og eru mjög metnaðarfullir matreiðslumenn. Þetta er eini alvöru dumplings-staðurinn á landinu og við erum virkilega ánægð að fá þá með í hópinn. Þá erum við komin með tíu staði í húsið, hver með sitt sérsvið. Þetta er einmitt það skemmtilegasta við Mathallir, að þú getur fengið ljúffengan mat frá mismunandi aðilum undir sama þaki,“ segir Sólveig og býður Sjöfn að smakka rétti frá öllum stöðunum tíu, sannkallað góðgæti frá öllum heimsálfum.
Svo er það smakktjattið hennar Sjafnar, missið ekki af Sjöfn smakka á tíu réttum í Mathöllinni í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.