Í þættinum Matur og heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar veitingastaðinn Tides sem er á EDITION hótelinu við Reykjavíkurhöfn. Þar má njóta heimsklassa matreiðslu en einnig einfaldari hressingar á kaffihúsinu og barnum. Halldórsson er yfirmatreiðslumaður á veitingastaðnum Tides þar sem áherslan er á heilnæma skandinavíska matreiðslu og hefur Georg mikla ástríðu fyrir matargerð. Georg vinnur náið með Gunnari Karli á Dilli, sem er ráðgjafi fyrir Tides og hefur unnið að því verkefni frá byrjun.
„Þegar Gunnar Karl nálgaðist mig varðandi þetta verkefni var ég yfirmatreiðslumaður á veitingastaðnum Óx, sem er falinn ellefu sæta veitingastaður á Laugaveginum. Frá því ég hóf störf sem matreiðslumaður hef ég aðallega einbeitt mér að því að verða betri handverksmaður en lítið spáð í rekstri og mannaforráðum. Ég hafði náð markmiðum mínum á Óx, staðurinn fékk meðal annars viðurkenningar frá White Guide og Michelin Guide, svo mér fannst tilvalið að fá nýja áskorun,“ segir Georg.
Edition er hugarfóstur Ians Schrager sem á áttunda áratugnum stofnaði hinn goðsagnakennda skemmtistað Studio 54 í New York. Hann er af mörgum talinn guðfaðir „boutique-hótelanna“ og er mikill hugsjónamaður, langt á undan sinni samtíð.
„Það sem greip mig við Edition var að þetta nýja og frumlega konsept; eitthvað sem ég hefði aldrei heyrt um áður. Hér er hugsað fyrir öllu, allt frá hljóði og lýsingu til lyktarinnar sem tekur á móti gestum þegar þeir labba inn. Starfsfólkið sem hér vinnur er það besta í sínu fagi og allt er þetta gert til að veita gestum ógleymanlega upplifun. Ofan á það er hótelið aðgengilegt öllum og mikið lagt upp úr því að verðin séu góð,“ upplýsir Georg. Áhorfendur fá innsýn í áherslurnar í matargerðinni og þjónustuna sem þar er í boði.
Á Tides er hægt að fá sælkerakræsingar frá morgni til kvölds þar sem metnaðurinn er í fyrirrúmi og allt er fyrsta flokks. Hvort sem það er helgarbröns og morgunverður þar sem áherslan er á hollan og klassískan skandinavískan mat, ferskan safa og á matseðlinum er að finna rétti eins og heimalagað rúgbrauð með reyktum laxi, hrærðum eggjum og piparrót, skyr-skálar, bakkelsi og margt fleira. Síðan er hádegisverðarseðillinn og hið dýrðlega kaffihús þar sem allt er bakað á staðnum.
Á veitingastaðnum á kvöldin er aðaláherslan á okkar besta hráefni eins og íslenska hörpuskel úr Breiðafirði, kavíar, heilgrillaðan fisk og „dry aged“ kjöt, svo eitthvað sé nefnt,“ segir hann og bendir á að aðaláherslan sé á hráefnið sjálft og náið samstarf við birgja og ræktendur. „Til að tryggja að hráefnið sem við notum sé það besta sem völ er á. Við gerum svo allt í okkar valdi til þess að leyfa hráefninu að njóta sín.“
Áhugaverð og skemmtileg heimsókn Sjafnar á Tides í þættinum Matur og heimili á Hringbraut í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00.
Hægt er að sjá brot úr þætti kvöldsins hér: