Heimsbyggðin nötrar vegna “aðgerða” íslands

Margir geta ekki hætt að hlæja vegna “aðgerða” ríkisstjórnar Íslands sem beint er að Rússum vegna meintrar eiturefnanotkunar í Englandi.

 

Bandaríkjamenn hafa ákveðið að reka 60 rússneska erindreka úr landa, Bretar byrjuðu leikinn og nokkur ríki innan ESB hafa fetað í fótspar þeirra, þar á meðal Danir og Svíar. Norðmenn ákváðu að reka einn mann úr landi.

 

Þá kemur utanríkisráðherra Íslands í beina útsendingu hjá RÚV, þungur á brún og nær bugaður af áhyggjum, til að lýsa “aðgerðum” Íslendinga. Rétt eins og heimsbyggðin bíði í ofvæni eftir áliti Guðlaugs Þórs á því alvarlega ástandi sem skapast hefur.

 

Ætla Íslendingar að grípa til refsiaðgerða? Í Rússlandi segja menn um það: “Guð minn almáttugur, hvað verður þá um okkur?”

 

Fréttamaður spyr utanríkisráðherra í beinni útsendingu hvort ætlun ríkisstjórnar Íslands sé að reka rússneska sendimenn úr landi.

Svarið er NEI. Ætlið þið þá að kalla sendiherra Íslands í Moskvu heim. Svarið er NEI. En við ætlum að fresta reglubundnum samráðsfundum með embættismönnum sendiráðsins í Reykjavík. Nú, jæja, ekki verra en það!

 

“Einhverjar frekari “refsiaðgerðir”, spyr fréttamaður. Og þá kemur bomban í beinni: Guðni forseti og við krakkarnir í ríkisstjórninni ætlum ekki að mæta á fótboltaleikina í Rússlandi þegar heimsmeistarakeppnin hefst í júní.

 

Rússar sleppa með skrekkinn og sennilega dugar þetta ekki til að hætt verði við HM í knattspyrnu 2018!

 

Þjóðin getur hlegið áfram því öllum finnst maklegt að ríkisstjórnin horfi bara á leikina í sjónvarpi heima hjá sér eins og flestir. Þessar “refsiaðgerðir” bitna þá helst á íslenskum ráðherrum og öðru silkihúfuliði sem ella hefði spókað sig á leikjunum í Rússlandi á kostnað skattgreiðenda.

 

Rtá.